Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Styrktarsjóður ELKO færir Aflinu gjafir.

Styrktarsjóður ELKO færði í gær barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri, Aflinu og Hetjunum nokkrar gjafir. Fulltrúar allra þriggja mættu í verslun ELKO og tóku við tækjum og tólum.

Aflið eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi og Hetjurnar er félag langveikra og fatlaðra barna á Norðurlandi.

Haukur Hergeirsson verslunarstjóri ELKO segir styrktarsjóð fyrirtækisins árlega gefa ýmislegt til samtaka og stofnana eins og þeirra sem hann færði gjafirnar í gær. „Þannig vill fyrirtækið sýna í verki að slagorðið Það sem skiptir þig máli, skiptir okkur máli eru ekki bara orðin tóm.“

Hetjurnar fengu fartölvu, prentara og hátalara, Aflið kaffikönnu, samlokugrill og síma og barnadeild SAk tvær Nintendo switch leikjatölvur og tölvuleiki.

 

Aðalfundur Aflsins 2020

Aðalfundur Aflsins verður haldinn miðvikudaginn 3.júní n.k. kl. 16.30. Fundurinn verður haldin í húsnæði Zoontaklúbbs Akureyrar, Aðalstræti 54.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Framboð til stjórnar tilkynnist með tölvupósti á netfangið aflidakureyri@gmail.com eigi síðar en 2. júní.

Góðar heimsóknir í Kjördæmaviku

Nú er að ljúka kjördæmaviku sem þingmenn nýta til að fara út í kjördæmi sín og hitta kjósendur. Kristín Heba gjaldkeri samtakanna og Sigurbjörg verkefnastjóri eru búnar að hitta mikið af góðu fólki þessa vikuna,ræða framtíð Aflsins og hvernig best sé að tryggja samtökunum öruggan rekstrargrundvöll næstu árin. Við þökkum kærlega fyrir heimsóknir og spjall síðustu daga.

Fundur á Dalvík með Ásmundi Einari félags- og barnamálaráðherra ásamt þingmönnum Framsóknar
Albertína Elíasdóttir og Logi Einarsson þingmenn Samfylkingarinnar kíktu við í gott spjall.
Þingflokkur VG kíkti líka í kaffi til okkar og áttum við gott samtal við þingmenn flokksins þær Lilju Rafney Magnúsdóttur og Steinunni Þóru Árnadóttur.

Félags- og barnamálaráðherra semur við Aflið á Akureyri

Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, fær átján milljóna króna framlag til að standa straum af starfsemi sinni, samkvæmt samningi sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnisstjóri Aflsins, undirrituðu um síðustu helgi. Samningurinn byggir á samþykkt fjárlaganefndar Alþingis og gildir til 31. desember 2020. Meginmarkmið samningsins er að styrkja Aflið til að standa straum af kostnaði starfseminnar, en hún felst meðal annars í ráðgjöf og stuðningi við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis, forvarnarfræðslu, faglegri ráðgjöf, handleiðslu ráðgjafa og þróunarstarfi.

„Mikill fjöldi fólks sækist eftir þjónustu Aflsins á ári hverju. Það er sorgleg staðreynd en jafn mikilvægt að tryggja að þolendur geti sótt stuðning og ráðgjöf við hæfi. Sömuleiðis að þeir þurfi ekki að fara um langan veg til að fá þjónustu. Samningurinn tryggir það,“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

Elín Björg Ragnarsdóttir formaður stjórnar Aflsins og Ásmundur Einar Daðason Félags- og barnamálaráðherra við undirritun samningsins.
Elín Björg Ragnarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason ásamt Líneik Önnu Sævarsdóttur þingmanni, Kristínu Hebu Gísladóttur gjaldkera Aflsins og Sigurbjörgu Harðardóttur verkefnastjóra og ráðgjafa Aflsins.

Gestkvæmt í Aflinu

Það hefur verið gestkvæmt hjá okkur í Aflinu nú í september. í byrjun mánaðar kom þingmaður sjálfstæðisflokksins Njáll Trausti Friðbertsson í heimsókn og fór ásamt stjórnarmönnum og verkefnastjóra yfir stöðu Aflsins. Síðar í mánuðinum fengum við svo heimsókn frá Ásthildi Sturludóttur bæjarstóra, bæjarfulltrúunum Guðmundi Baldvi Guðmundssyni og Höllu Björk Reynisdóttir og Kristni J. Reimarssyni sviðsstjóra samfélagssviðs. Það var einnig gagnlegur fundur þar sem farið var yfir stöðu mála.
Það er mikilvægt fyrir Aflið að vera í góðum samskiptum við þingmenn kjördæmisins sem og við bæjarfulltrúana okkar. Við þökkum þessum góðu gestum kærlega fyrir komuna.

Ofbeldi gegn erlendum konum á Íslandi

Föstudaginn 6. september stóð Aflið fyrir málstofu sem bar yfirskriftina „Ofbeldi gegn erlendum konum á Íslandi“ Flutt voru þrjú mjög fróðleg erindi þar sem fram kom hvernig staðan raunverulega er. Fram kom í erindi Hildar Guðmundsdóttur vaktsýru í Kvennaathvarfinu að 35 prósent kvenna sem leituðu til athvarfsins á s.l. ári voru af erlendum uppruna. Þessi hópur kvenna á sjaldan stuðningsnet hér á landi sem gerir stöðu þeirra oft enn erfiðari.
Telma Velez sagði frá rannsókn sem er farin af stað og er um reynsla innflytjendakvenna af kynferðisofbeldi sem og starfstengdu ofbeldi. Gögn í rannsókninni eru m.a. annars unnin upp úr frásögnum kvenna sem komu fram í #metoo byltingunni og voru frásagnir sem Telma las upp sláandi og áhrifamikil. Að lokum kom Drífa Snædal forseti ASÍ og sagði frá stöðu erlends fólks á vinnumarkaði.
Öll þessi erindi vöktu upp margar spurningar og skapaðist góð mræða um málefnið í lok málstfunnar, þar var m.a. velt upp hvernig mætti breyta til betri vegar og hvernig best gæti verið að ná til þessa viðkvæma hóps.
Það er von okkar í Aflinu að þessi umræða verði til þess að opna augu okkar allra um þá miklu þörf sem er fyrir hendi að hjálpa þessum konum að eiga gott og innihaldsríkt líf á Íslandi.