Aflið er samtök sem voru stofnuð á Akureyri árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta þar sem í ljós kom mikil þörf fyrir samtök af þessu tagi. Starfsemin byggir á forsendum þolenda kynferðislegs ofbeldis og/eða heimilisofbeldis. Frá upphafi hefur Aflið vaxið jafnt og þétt og skjólstæðingum og viðtölum hefur fjölgað ár frá ári. Árið 2011 voru viðtöl 685 en stefnir í yfir 1600 viðtöl árið 2016. Starfandi ráðgjafar hjá Aflinu í dag eru fimm talsins.
Þar sem um mjög viðkvæm og persónuleg mál er að ræða er lögð rík áhersla á að fyllsta trúnaðar og þagmælsku sé gætt um öll mál og þá einstaklinga sem þangað leita.
Við bjóðum upp á:
- Einstaklingsviðtöl fyrir þolendur ofbeldis og aðstandendur þeirra.
- Sjálfshjálparhópar fyrir þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis.
- Fyrirlestra um starfsemi Aflsins, kynferðis- og heimilisofbeldi og afleiðingar þess.
Hversu algengt er kynferðisofbeldi?
Tölfræðin sýnir að:
- 1 af hverjum 4 stúlkum geta verið beittar kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur
- 1 af hverjum 6 drengjum geta verið beittir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára.
Í hverju felst starfið?
Vinnan á Aflinu felst í því að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk og aðstoða þá við að nota hann til að breyta eigin lífi og að sjá ofbeldið í félagslegu samhengi en ekki sem persónulega vankanta.
Við lítum svo á að þeir sem hingað leita séu „sérfræðingarnir“ í eigin lífi, það er að segja:
Enginn þekkir betur afleiðingar kynferðisofbeldis en sá sem hefur verið beittur því.
Þar sem um sjálfshjálparstarf er að ræða ber hver einstaklingur ábyrgð á sinni vinnu en fær stuðning og samkennd frá annarri/öðrum menneskju/m með sömu reynslu.
Þeir sem leita til Aflsins eru alls staðar að af landinu en þó sérstaklega frá Norðurlandi.