Aflið hlýtur styrk úr Samfélagssjóði Norðurorku

Fimmtudaginn 10. janúar úthlutaði Norðurorka styrkjum til samfélagsverkefna og fór athöfnin fram í Háskólanum á Akureyri. Markmið með styrkjum Norðurorku er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. Aflið hlaut styrk að upphæð 250.000 kr. til hópastarfs með karlmönnum en Aflið hóf hópavinnu með karlkyns þolendum ofbeldis árið 2018. Karlmenn voru 15% skjólstæðinga Aflsins árið 2018 og samtökin fagna því að karlmenn leiti sér aðstoðar við að vinna úr afleiðingum ofbeldis og áfalla í auknum mæli. Það má ekki sísta þakka mikilli vitundarvakningu hin síðari ár um að ofbeldi sé aldrei á ábyrgð þolenda.

Kristín Heba Gísladóttir, gjaldkeri Aflsins, tekur við styrknum frá Helga Jóhannessyni forstjóra Norðurorku

Aflið þakkar Norðurorku fyrir stuðning þeirra við Aflið og önnur samfélagsverkefni á svæðinu.

Styrkur frá Gallup

Aflið fékk styrk að upphæð 150.000 kr. frá Gallup. Aflið var tilnefnt sem styrkþegi af þátttakendum í könnun Gallup nýverið og var styrkurinn afhentur við hátíðlega athöfn í húsnæði Gallup að Hvannavöllum á Akureyri þann 20. des.

Það er Aflinu mikils virði að þátttakendur í könnunum Gallup skuli vilja styrkja Aflið. Aflið þakkar þeim og Gallup innilega fyrir styrkinn.

Vigdís Rafnsdóttir, sérfræðingur á greiningarsviði hjá Gallup, afhendir Elínu Björgu Ragnarsdóttur, stjórnarformanni Aflsins styrk

Opið hús hjá Aflinu

Aflið hefur síðustu ár verið með opið hús í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem þetta árið fékk undirtitilinn #HearMeToo. Árið í ár var engin undantekning og var boðið til opins húss þann 6. desember s.l. Vel var mætt og góð stemming.

Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og Dana Ýr hófu leikinn með því að leika nokkurn frumsamin lög fyrir gesti. Flutningurinn fangaði viðstadda svo rækilega að enginn hafði rænu á að taka af þeim mynd. Við biðjumst afsökunar á því.

Því næst steig á stokk Ólöf María Birnu Brynjarsdóttir lífssöguráðgjafi og meistaranemi í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri. Ólöf kynnti efni meistaraverkefnis síns sem fólst í rannsókn á ólíkum birtingarmyndum sjálfsástar og gildi sögunnar í lífi hverrar manneskju. Eftir erindið spjölluðu gestir við Ólöfu um rannsókn hennar en hún er á lokametrunum með meistaraverkefni sitt og mun verja það í byrjun nýs árs.

Ólöf María Birnu Brynjarsdóttir og fjölskylda

Því næst flutti Ivan Mendez frumsamið og afritað efni í bland.

Ivan Mendez mundar gítarinn

Eftir að Ivan hafði heillað gesti með leik og söng, og gestir höfðu aðstoðað við að losa bíla úr sköflum fyrir utan hús, tók Karen Birna Þorvaldsdóttir meistaranemi í sálfræði við Háskólann á Akureyri við og sagði frá rannsókn sinni á upplifun brotaþola af nýjum verklagsreglum lögreglunnar á Akureyri. Að loknu erindi hennar spunnust nokkrar umræður um stöðu brotaþola innan réttarkerfisins. Karen er að leggja lokahönd á meistarverkefni sitt sem byggir á rannsókn hennar.

Karen Birna Þorvaldsdóttir, meistaranemi í sálfræði við HA

Að loknum umræðum um verkefni Karenar steig Stefán Elí Hauksson á svið og lokaði kvöldinu með góðri blöndu af frumsömdu efni og afrituðu. Stefán hefur þegar gefið út tvær plötur þótt ungur sé, nú síðast I’m Lost, Please Return If Found. Það er ákaflega ánægjulegt að geta boðið gestum upp á lifandi tónlist flutta af ungu hæfileikafólki hér að norðan eins og Stefáni, Ivani og Fanneyju og Dönu.

Stefán Elí Hauksson í miklu stuði

Aflið þakkar Fanneyju og Dönu, Ólöfu Maríu, Ivani, Karen og Stefáni Elí kærlega fyrir að koma og gefa af sér fyrir gott málefni, og gestum fyrir að mæta og taka virkan þátt í umræðum.

Aðalfundur Aflsins

Aðalfundur Aflsins var haldinn fimmtudaginn 3. maí, á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf.

Á fundinn mættu fulltrúar frá VG, L-listanum og Samfylkingunni og Aflið fagnar þeim áhuga sem framboðin á Akureyri sýna starfsemi samtakanna.

Elín Björg Ragnarsdóttir flutti pistil stjórnar þar sem hún stiklaði á stóru yfir starf samtakanna árið 2017 og stöðu samtakanna. Gestir fengu ársskýrslu og ársreikning Aflsins afhentan og  Níels Guðmundsson frá ENOR fór yfir ársreikninginn. Rekstraráætlun Aflsins fyrir yfirstandandi starfsár var kynnt en vegna niðurskurðar í framlögum frá ríkinu hefur Aflið þurft að skera verulega niður í allri þjónustu sem ekki snýr beint að ráðgjöf við þolendur og samningsbundinni fræðslu.

Í stjórn voru kosin:

Elín Björg Ragnarsdóttir, formaður
Hrafnhildur Gunnþórsdóttir
Rósa Matthíasdóttir
Tryggvi Hallgrímsson
Þórunn Anna Elíasdóttir

Varamenn í stjórn voru kosin:

Kristín Heba Gísladóttir
Snorri Björnsson

Eftir að fundi var slitið gæddu fundargestir sér á léttum veitingum og tóku spjall um starfsemina og daginn og veginn.

Málþing um Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norður og Austurlandi

Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, stendur fyrir málþingi um Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norður og Austurlandi í anddyri Borga við Norðurslóð, fimmtudaginn 26. apríl næstkomandi. Málþingið hefst klukkan 16:00

Dagskrá:

Málþing sett.

Ársskýrsla Aflsins og starf samtakanna kynnt.

Sigrún Sigurðardóttir, doktor við Háskólann á Akureyri og Jokka G Birnudóttir, fræðslufulltrúi Aflsins:
„Öskrandi líkaminn og þöggun heilbrigðiskerfisins“.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra:
„Mæta þörfum þolenda ofbeldis“

Hafdís Inga Hinriksdóttir, félagsráðgjafi og sérfræðingur Bjarkarhlíðar:
„Reynslan og starfið í Bjarkarhlíð“

Fulltrúar frá Zontaklúbbunum á Akureyri afhenda Aflinu afrakstur Hádegisfundar til styrktar Aflinu sem haldinn var 8. mars s.l.

Málþingi lokað.

Allir velkomnir

Fundur fólksins í Hofi 8.-9. september

Lýðræðishátíðin Fundur fólksins verður haldin dagana 8. og 9. september 2017 í Hofi á Akureyri. Aflið verður með kynningarbás í Nausti þar sem starfsmenn Aflsins munu kynna starfsemi samtakanna og ræða við gesti hátíðarinnar.

Á heimasíðu hátíðarinnar segir: „hátíðinni er ætlað að virkja lýðræðisþátttöku almennings og vera vettvangur allra þeirra sem vilja ræða málefni samfélagsins. Fundur fólksins er vettvangur fyrir þátttöku, fræðslu og umræðu, suðupottur hugmynda þar sem alvöru fólk hlustar og ræðir saman í eigin persónu.“

Við vonumst til að sem flestir komi og eigi við okkur samtal og kynni sér starfsemi samtakanna.

Aflið á „Nordiske kvinner mot vold“ ráðstefnu

Fulltrúar frá Aflinu fjölmenntu á ráðstefnuna „Nordiske kvinner mot vold“ sem haldin var á Grand Hotel Reykjavík dagana 1.-3. september. Óhætt er að segja að ráðstefnan hafi verið vel heppnuð og komu starfsmenn Aflsins fróðari og tvíefldir til baka eftir að hafa hlýtt á fjölda kvenna flytja erindi og vera með vinnustofur þar sem áherslan var á raddir þolenda.

Það var mjög áhugavert að heyra af starfi samtaka og athvarfa á norðurlöndum og hvernig þau eru að nýta sér nýjustu tækni og samfélagsmiðla til að ná til fleiri einstaklinga sem þurfa á þjónustu þeirra að halda. Eins voru ávörp þolenda og umfjöllun um kröfur þeirra um að endurheimta sitt rými í samfélaginu mjög áhrifamikil.

Aflið þakkar starfsfólki Stígamóta og Kvennaathvarfsins fyrir góðar móttökur og fyrir skipulagningu ráðstefnunnar sem fór hnökralaust fram.

Aflið virkt á hátíðum sumarsins

Aflið hefur átt í góðu samstarfi við skipuleggjendur hátíða víða á Norður og Austurlandi síðustu ár og engin breyting varð á því þetta árið.

Aflið var með vaktir og viðveru á Bíladögum á Akureyri dagana 14.-17. júní. Starfsmenn Aflsins voru sýnilegir á helstu viðburðum og skemmtistöðum á Akureyri auk þess sem tjaldsvæði voru heimsótt. Starfsmenn Aflsins tóku þátt í undirbúningsfundum og skipulagi og áttu mjög gott samstarf við skipuleggjendur og aðra sem að Bíladögum komu. Viðvera og gönguvaktir Aflsins á Bíladögum og um verslunarmannahelgina eru hluti af skyldum Aflsins samkvæmt samstarfssamningi samtakanna við Akureyrarbæ.

Aflið var með vaktir og viðveru á Eistnaflugi á Neskaupstað dagana 5.-9. júlí að ósk skipuleggjenda og tóku starfsmenn Aflsins þátt í samráðsfundum á meðan á hátíðinni stóð. Starfsmenn Aflsins voru sýnilegir á tjaldsvæði og á tónleikum auk þess sem þeir voru á sólarhrings bakvakt meðan á hátíðinni stóð. Aflið hefur áður verið með viðveru á Eistnaflugi og átt í góðu samstarfi við hátíðina og er það okkar von að framhald verði á því.

Mærudagar voru haldnir á Húsavík dagana 27.-30. júlí og voru starfsmenn Aflsins með vaktir og viðveru á helstu viðburðum og skemmtistöðum á föstudegi og laugardegi auk þess sem þeir voru með símann á bakvakt allan sólarhringinn. Starfsmaður Aflsins var viðstaddur samráðsfundi á meðan á hátíðinni stóð og var samstarf og aðstaða eins og best verður á kosið og vonandi verður framhald á því næstu ár.

Líkt og á Bíladögum var Aflið með vaktir og viðveru á Einni með öllu um verslunarmannahelgina á Akureyri sem hluta af samstarfssamningi við Akureyrarbæ. Aflið tók þátt í undirbúningsfundi fyrir helgina og fékk aðstöðu í húsnæði Viðburðastofu Norðurlands. Skipulag vakta og viðveru var með svipuðum hætti og á Bíladögum þar sem starfsmenn Aflsins voru sýnilegir á helstu viðburðum, tjaldstæðum og skemmtistöðum bæjarins auk þess sem starfsmaður var á sólarhringsbakvakt alla helgina.

Aflið þakkar skipuleggjendum fyrir frábært samstarf og það traust sem okkur er sýnt.