Ungmennanámskeiðið „Heilbrigð samskipti“ er nýtt námskeið fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára.
Námskeiðið er til að fræða um heilbrigð samskipti, geta greint óheilbrigð samskipti og þekkja rauðu flögginn sem geta bent til ofbeldis eða áreitis. Einnig er lögð áhersla á að ungmenni þekki líkama sinn og geti greint ef um ofbeldi eða áreiti er að ræða og að lokum, hvað þau geta gert ef þau verða fyrir ofbeldi.
Tveir hópar verða í boði dagana 2.apríl til 17.apríl og 23.apríl til 9.maí. Hóparnir verða á miðvikudögum og föstudögum frá 14:00 til 16:00.
Markmið Aflsins er að veita einstaklingum öruggt umhverfi til að fræðast, spyrja spurninga og velta fyrir sér efnistökum námskeiðsins. Fræðsla er ein besta forvörnin sem við eigum og með því að fræða ungmenni um heilbrigð samskipti, heilbrigð sambönd og mörk, teljum við að hægt sé að draga úr ofbeldi og bæta skilning þeirra á áhrifum og afleiðingum þess. Kennsla í félags- og tilfinningafærni getur hjálpað börnum að takast á við ágreining á friðsælan hátt og byggja upp heilbrigð samskipti.
Jóhanna Margrét Ásgeirsdóttir, fræðslustýra samtakanna, mun leiða námskeiðið en hún hefur verið ráðgjafi hjá Aflinu og er hjúkrunarfræðingur með diplómu í jákvæðri sálfræði og markþjálfi. Jóhanna hefur mikla reynslu af fræðslu um ofbeldi og heilbrigð samskipti en hún sér um önnur námskeið Aflsins þar sem hún hefur aflað sér reynslu í að skapa öruggt og stuðningsríkt umhverfi fyrir alla þátttakendur. Það er mjög mikilvægt að námskeiðið sé leitt af leiðbeinanda sem þátttakendur geta treyst og myndað samband við.
Foreldrar eru hvattir til að skrá börnin sín eingöngu í samráði við þau en þátttakendur geta líka sótt sjálfir um að taka þátt en allir foreldrar verða upplýstir um þátttöku barna sinna. Foreldrar og þátttakendur munu fá ítarlegar upplýsingar um efnistök námskeiðsins áður en það hefst. Fyrir námskeiðið verður haldinn kynningarfundur með foreldrum þar sem farið verður yfir markmið og innihald námskeiðsins.
Skráning og fyrirspurnir á aflidak@aflidak.is