Starfsdagur í Aðalstræti 14

Í Aðalstræti 14 er starfsemi Aflsins, Bjarmahlíðar og Kvennaathvarfsins. Þann 21.mars s.l. var haldin starfsdagur þar sem samtökin hittust til að bæta samstarf, efla faglega þekkingu og auka starfsánægju innan hússins. Mikilvægt er að halda slíka daga til að fá tækifæri til að ræða nýjunga, styrkja tengsl milli starfsmanna og þróa stefnu eða nýjar aðferðir í starfi. 

Starfsdagurinn var að þessu sinni haldinn í Strandgötu. Viljum við þakka Guðrúnu Kristínu Blöndal kærlega fyrir að lána okkur rýmið og aðstoð við skipulagningu.

Við fengum frábæra kynningu frá Heimilisfrið þar sem Þórunn Eymundardóttir sálfræðingur og Henríetta Ósk Gunnarsdóttir sálfræðingur, hittu okkur á fjarfundi til að kynna fyrir okkur starfsemi samtakanna. Einnig fengum við Miriam Petru Ómarsdóttur Awad fræðsluaðila um fordóma og inngildingu til að kynna fyrir okkur fordóma í íslensku samfélagi og menningarnæmi. 

Heimilisfriður er meðferðar og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum fyrir einstaklinga sem beita maka sína ofbeldi. Hjá samtökunum starfa 5 sálfræðingar og 1 fjölskyldufræðingur og eru samtökin í faglegu samstarfi við ATV í Ósló, Noregi. 

Þórunn kynnti fyrir okkur samtökin og starfsemi þeirra. Farið var í ferli meðferðar og hvernig henni er háttað, einnig var farið yfir aðferðafræði Heimilisfriðs sem er þá fyrir gerendur. Þá talaði hún einnig um töluverðan mun á afleiðingum ofbeldis eftir kyni. Það var gagnlegt að fá innsýn í reynslu og áskoranir frá öðru sjónarhorni. Það undirstrikar mikilvægi þess að nálgast málefnið út frá fjölbreyttum sjónarhornum og tryggja að stuðningur við alla þolendur sé sniðinn að ólíkum þörfum. Þórunn fór yfir hvernig við getum nýtt okkur þjónustu Heimilisfriðar fyrir okkar skjólstæðinga og vísað þeim til þeirra þegar á við. 

 Í lokin voru teknar umræður þar sem okkur gafst tækifæri á að spyrja spurninga sem Þórunn svaraði og í kjölfarið mynduðust góðar og málefnalegar samræður.

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, fræddi okkur um fordóma í íslensku samfélagi. Miriam sagði að fordómar á Íslandi séu margvíslegir og að þeir feli oft í sér fullyrðingar um eðli fólks eða neikvæð viðhorf byggð á alhæfingum. Miriam fjallaði um rasisma og nefndi mikilvægi þess að lausnin sé ekki að hætta að tala um rasisma, að það valdi því frekar að einstaklingar sem verða fyrir fordómum fá aldrei að ræða upplifun sína.  

Menningarfordómar er þá eitthvað sem fólk alhæfir um eðli fólks út frá áhaldsbærum atriðum eins og menningu, trú, tungumáli, uppruna eða þjóðerni og það sé oft notað í dægurefni, fréttaflutningi, þjóðernisumræðu og áhrifum á stríðsátökum. Þar kom Miriam með nokkur dæmi sem var áhugavert að sjá. Þannig verði einstaklingar litaðir með þeim birtingamyndum sem við sjáum af ákveðnum stöðum í heiminum. Miriam nefndi að fordómar á Íslandi séu oft settir fram í gríni og það sé oft afneitun um að þeir séu til staðar hér á landi og að jákvæðir fordómar sé oft notaðir, þegar alhæft er á jákvæðan hátt um ákveðinn hóp.  

Fyrirlestur Miriam beindi ljósum á þá þætti sem þarf að hafa í huga þegar við veitum einstaklingum þjónustu sem verða oft fyrir fordómum og öráreitis vegna t.d. útlits eða annarra þátta. Þá hélt hún áfram að menningarnæmi feli mikið af sjálfsfræðslu í sér og mikilvægt sé að kynna sér og viðurkenna að fordóma geti haft áhrif á hvernig fólk leitar sér hjálpar. Mikil og góð umræða var eftir fyrirlesturinn og var mjög margt sem Miriam benti ráðgjöfum og starfsmönnum á að gæti verið ástæður fyrir því að erfiðara væri fyrir einstaklinga af erlendum uppruna að leita sér aðstoðar. Nú er það hlutverk okkar að nýta okkur þessa þekkingu til þess að auka aðgengi fólks af erlendum uppruna að þjónustunni.  
Við þökkum Miriam Petru kærlega fyrir að vera með okkur á starfsdegi Aðalstræti 14. 

Dagurinn heppnaðist vel og við þökkum Kvennaathvarfinu, Bjarmahlíð, Þórunni, Henríettu og Miriam kærlega fyrir daginn og samveruna.

Scroll to Top