Kvennaár er samstarfsverkefni fjölmargra samtaka femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Kvennaár samanstendur af viðburðum þar sem konur og/eða kvár koma saman, auk framlagningu krafna um aðgerðir í þágu jafnréttis. Kvennaár er framhald Kvennafrís og Kvennaverkfalla fyrri ára.
Ofbeldi er fjölbreytt og getur haft gífurlega ólík áhrif á líf þeirra sem því eru beitt. Til Aflsins leita yfir hundrað nýir skjólstæðingar á ári hverju – flestir vegna andlegs ofbeldis – og á það sér stað í nánum samböndum, innan fjölskyldna, á vinnustöðum, á skemmtistöðum, inn á heimilum og í skólum. Þessi listi er ekki tæmandi, en gefur innsýn í hversu mikið ofbeldi gegnsýrir samfélagið okkar. Ef við sjáum það ekki, þá erum við ekki að horfa nógu vel.
Aflið hefur stofnað rafrænan viðburð undir nafninu „Ekki meira ofbeldi – deilum reynslusögum“ í samstarfi við Kvennaár 2025. Þar hvetjum við öll til að deila reynslusögum sínum eða dæmum um ójafnrétti, mismunun og ofbeldi – alveg nafnlaust. Viðburðurinn er opinn á Facebook og sögunum er safnað á öruggan, trúnaðarsamlegan hátt í gegnum sérstakt netform og Padlet-vegg.
https://padlet.com/aflidakureyri/ekki-meira-ofbeldi-1puhpu6ssr7kv2ym
Markmiðið er að sýna hversu víðtækar og fjölbreyttar reynslur þeirra á Íslandi eru, og að minna á að baráttunni er ekki lokið. Þó margt hafi áunnist í jafnréttismálum, þá sýna sögurnar að kerfið, viðhorf og samfélagsgerð halda enn aftur af fólki – hvort sem það birtist í ofbeldi, menningarlegum fordómum, þriðju vaktinni eða mismunun á vinnumarkaði.
Viðburðurinn snýst ekki aðeins um að segja sögur, heldur líka um að skapa samstöðu og sýnileika. Með því að tala upphátt, jafnvel nafnlaust, erum við að minna á að enginn stendur einn.
Allar innsendar reynslusögur verða birtar 24. október, á degi verkfallsins, til að sýna samhug og þann kraft sem felst í fjöldanum. Það verður táknræn birting þess að við erum mörg – og við segjum einróma: ekki meira ofbeldi.
Þú mátt hafa söguna stutta eða langa, dramatíska eða einfalda, persónulega eða almenna – allt er velkomið.
Linkur á viðburðinn má finna hér: Ekki meira ofbeldi – deilum reynslusögum