Í tilefni af alþjóðlegum kvenréttindadegi, 8. Mars s.l., hlaut Aflið styrk að upphæð 10.000 bandaríkjadala, sem samsvarar um 1,4 milljón króna, frá Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation). Styrkurinn mun styðja við starfsemi okkar á Austurlandi og efla þjónustuna þar.
Erla Hrönn, framkvæmdastýra Aflsins, sagði í viðtali við Önnu H. Pálsdóttur hjá Alcoa, að Aflið leggi áherslu á að þjónusta við þolendur ofbeldis ætti ekki að ráðast af búsetu þeirra. “Við erum afar þakklátar fyrir þennnan styrk, sem mun gera okkur kleift að kynna starfsemi okkar betur á Austurlandi. Margir á svæðinu vita ekki af okkur, en þurfa mjög á aðstoð að halda. Þolendur í dreifbýli hafa oft takmarkaðan aðgang að úrræðum, en það má ekki vera þannig að búseta ráði því hversu langt einstaklingur þarf að ferðast til að hitta fagaðila eða leita sér skjóls frá ofbeldi.”
Undanfarin misseri höfum við verið að vinna að því að koma á fót fleiri starfsstöðvum á landsbyggðinni þar sem við höfum séð að þegar þjónustan er til staðar á svæði eykst fjöldi þeirra sem leitar sér hjálpar. Þetta bendir til þess að nálægð við úrræði skiptir sköpum þegar kemur að því að fá aðstoð.
Í september 2022 gerðu sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð samning við Aflið um reglubundna þjónustu fyrir þolendur ofbeldis á Austurlandi. Þar sem Vopnarfjarðarhreppur og Fljótdalshreppur eru hluti af félagsþjónustu Múlaþings, er þjónustan aðgengileg fyrir alla Austfirðinga. Þá hafa sveitarfélögin veitt húsnæði fyrir viðtöl, en það getur verið viðkvæmt fyrir þolendur, sem óttast að mæta öðrum sem gætu tengt þá við þjónustuna. Við viljum því komast nær fólkinu, þjónustan á ekki einungis fyrir þolendur, heldur einnig fyrir aðstandendur þeirra sem oft veigra sér við að leita aðstoðar. Ofbeldi hefur víðtæk áhrif á fjölskyldur og ástvini.
Styrkurinn frá Alcoa gerir okkur hjá Aflinu í stakk búin til að kynna starfsemi okkar á Austurlandi, bæði í prentmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þannig vita fleiri af okkur og geta þá leitað til okkar og fengið þá aðstoð sem þau þurfa og vilja. Einnig munum við geta haldið námskeið um afleiðingar ofbeldis, veitt fræðslu á vinnustöðum og verið meira til staðar fyrir samfélagið.
Við þökkum Alcoa kærlega fyrir styrkinn sem mun svo sannarlega nýtast samtökunum vel.
