Þann 11.mars heimsóttu formaður stjórnar, framkvæmdastýra, fræðslustýra og kynningastýra Aflsins nýverið lögreglustjóra Austurlands, Margréti Maríu Sigurðardóttur til að kynna starfsemi samtakanna og vekja athygli á þeirri þjónustu sem stendur þolendum ofbeldis til boða á svæðinu. Markmið heimsóknarinnar var að auka vitund um mikilvægi aðgengilegrar þjónustu og stuðla að aukinni aðsókn meðal þeirra sem þurfa á henni að halda.
Margrét María tók vel á móti okkur í sól og blíðu á Eskifirði. Á fundinum var rætt um fjölmörg málefni er varða þjónustu við þolendur ofbeldis, þar á meðal hvernig hægt sé að bæta aðgengi að úrræðum án tillits til búsetu. Einnig var fjallað um þau námskeið sem samtökin bjóða upp á fyrir skjólstæðinga og mikilvægi þess að þau séu aðgengileg í heimabyggð, þannig að fólk þurfi ekki að ferðast langar vegalengdir til að fá nauðsynlegan stuðning.
Með þessari heimsókn viljum við undirstrika að þjónusta samtakanna er fyrir öll á Austurlandi. Við munum halda áfram að vinna að því að auka aðgengi að úrræðum og styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda, óháð búsetu. Búseta á ekki að ákvarða hvernig eða hvenær fólk vinnur úr afleiðingum ofbeldis – aðstoðin á að vera aðgengileg öllum.
Við þökkum Margréti Maríu, lögreglustjóra Austurlands, fyrir góðar móttökur og gott samtal um þessi mikilvægu mál.
