Aflið á Austurlandi

Aflið fóru á Austurland í mars til að kynna starfsemi samtakanna sem er í boði á svæðinu. Við leggjum mikla áherslu á að þjónusta við þolendur ofbeldis eigi ekki að ráðast af búsetu þeirra.

Sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð gerðu, í september 2022, samning við Aflið um reglubundna þjónustu fyrir þolendur ofbeldis á Austurlandi. Þannig var tilgangur ferðarinnar  að gera starfsemina sýnilegri, því margir á svæðinu vita ekki af henni en þurfa hins vegar á henni að halda. Þolendur í dreifbýli hafa oft takmarkaðan aðgang að úrræðum, en það á ætti ekki að ráðast af búsetu hversu langt einstaklingur þarf að ferðast til að hitta fagaðila eða leita sér skjóls frá ofbeldi.

Við höfum séð að þegar þjónustan er til staðar á svæði eykst fjöldi þeirra sem leita sér hjálpar. Þetta bendir til þess að nálægð við úrræði skiptir sköpum þegar kemur að því að fá aðstoð. Með heimsókninni á Austurland vildum við þannig komast nær fólkinu.

Eins og er er einungis einn ráðgjafi frá Aflinu með reglulega viðveru á Egilstöðum og Reyðarfirði, en þjónusta okkar er fyrir öll á Austurlandi og vinnum við nú í því að ráða til okkar tvo nýja ráðgjafa á svæðinu til að gera þjónustuna bæði aðgengilegri og bjóða fólki á svæðinu að velja hvaða ráðgjafa þau hitta líkt og einstaklingar á Akureyri geta.

Starfsfólk Aflsins fundaði m.a. með Fjölskyldusviði Múlaþings á Egilsstöðum, Fjölskyldusviði Fjarðabyggðar á Reyðarfirði, Lögreglustjóra Austurlands á Eskifirði og Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, þar sem mynduðust áhugaverðar og málefnalegar umræður. Allir tóku vel á móti okkur og mikill áhugi var á kynningu starfseminnar.

Heimsóknin var afar ánægjuleg og þakkar Aflið fyrir hlýjar móttökur.

Scroll to Top