Úrræði fyrir þolendur á landsbyggðinni

Þolendur á landsbyggðinni búa misvel að úrræðum þegar þeir verða fyrir ofbeldi. Frí og
þolendamiðuð þjónusta er mikilvæg og aðgengi einstaklinga að slíkri þjónustu er mjög ólík á
milli landshluta. Aflið þjónustar nokkur sveitarfélög en það má segja að þjónusta Aflsins sé
sterkust á Norðurlandi eystra þar sem aðal starfsstöð Aflsins er. Ástæða þess er ekki fjöldi
ráðgjafa eða starfmanna heldur vegna samstarfsaðila samtakanna sem eru einungis staðsettir á
Norðurlandi eystra. Þeir samstarfsaðilar eru Bjarmahlíð og Kvennaathvarfið. Aflið sinnir
ákveðnu hlutverki sem þessir samstarfsaðilar geta ekki sinnt og öfugt. Starfsemi þeirra og þjónusta eru gífurlega mikilvæg og samstarf á milli þessara samtaka er nauðsynlegt og gerir þeim kleift að veita einstaklingum betri þjónustu en ella.

Við getum að sjálfsögðu alltaf haft samband við Bjarmahlíð og Kvennaathvarfið fyrir
einstaklinga sem búa fyrir utan okkar aðal starfsstöð en þjónustan sem þessi samtök geta veitt
þeim er oft háð því að þeir séu á Akureyri. Konur alls staðar á landsbyggðinni geta leitað í
Kvennaathvarfið á Akureyri, en hversu langt á kona að þurfa að ferðast til þess að komast í
öryggi? Bjarmahlíð og Aflið geta tekið fjarviðtöl við einstaklinga hvar sem er á landinu, en
eiga einstaklingar ekki rétt á að velja hvort þeir fái stað- eða fjarþjónustu? Búseta á ekki að
hafa áhrif á hvernig þjónustu þú getur fengið, búseta á ekki að segja til um hversu lengi þú
þarft að keyra til þess að hitta fagaðila eða komast í skjól frá ógn, búseta á ekki að ákvarða
hvernig eða hvenær þú vinnur úr afleiðingum ofbeldis.

Aflið hefur unnið að því að opna fleiri starfsstöðvar á landsbyggðinni og hefur það sýnt að
þegar úrræðið stendur til boða, þá fjölgar einstaklingum sem nýta sér þjónustuna á því svæði.
Sem gefur til kynna að nálægð við úrræði auki líkurnar á því að fólk leiti sér hjálpar.
Úrræði á landsbyggðinni þurfa auknar fjárveitingar til þess að sinna allri landsbyggðinni jafn
vel. Eins og staðan er í dag er frí þolendamiðuð þjónusta á landsbyggðinni ekki viðunandi.
Aflið er með viðtalsþjónustu í fimm bæjarfélögum og í einu þeirra eru Kvennaathvarfið og
Bjarmahlíð.

Hvað eru aftur mörg bæjarfélög á landsbyggðinni?

Höfundur er framkvæmdarstýra Aflsins. Greinin er birt í tengslum við alþjóðlegt 16 daga
átak gegn kynbundnu ofbeldi.

Tekið af Vísir.is, sjá nánar: Úrræði fyrir þolendur á landsbyggðinni – Vísir (visir.is)

Scroll to Top