Um ofbeldi

Skilgreiningar ofbeldis

Ofbeldi í nánu sambandi

Notkun á hugtökunum heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum er nokkuð frjálsleg og oft notuð til skiptis í daglegum samskiptum. Heimilisofbeldi getur verið af ýmsum toga og í hverju tilfelli er oft um fleiri en eina tegund ofbeldis að ræða. Einnig er algengt að form/birtingarmyndir ofbeldis skarist, þannig er til dæmis líkamlegt ofbeldi einnig andlegt ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi er jafnframt líkamlegt í flestum tilfellum, en getur verið t.d. að þvinga fólk til að horfa á klám, að vera með kynferðislegar aðdróttanir eða að tala á óviðeigandi kynferðislegan máta.

Ofbeldi í nánum samböndum er ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er t.d. en ekki takmarkað við: nákomnum einstaklingi, skyldmenni, maka, barni, foreldri, forráðamans, umsjónaraðila. Þolandi og gerandi þurfa ekki að vera í sambandi, gift eða í sambúð til þess að ofbeldi sem gerandi verður fyrir sé flokkað sem ofbeldi í nánu sambandi. Þá er ofbeldi í nánu sambandi ekki heldur bundið við heimili geranda eða þolanda né kyn einstaklinga (Kvennaathvarf.is, skilgreiningar á heimilisofbeldi).  

Meira um ofbeldi í nánu sambandi:

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi getur bæði átt sér stað í nánum samböndum og einnig á meðal ókunnugra. Kynferðisofbeldi er engu að síður oftast beitt af einhverjum sem við þekkjum og treystum  (Stígamót.is, kynferðisofbeldi). Kynferðislegt ofbeldi á sér margar birtingarmyndir en felur oft í sér skerðingu á kynfrelsi einstaklings, til dæmis þegar að einstaklingur er neyddur til athafna eða mikil pressa er sett á hann til þess að taka þátt í kynferðislegum athöfnum (Sjúkást.is, kynferðisofbeldi). Birtingarmyndir kynferðisofbeldis eru til dæmis stofnanaofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum, vændi, stafrænt kynferðisofbeldi, nauðgun og kynferðisleg áreitni. Kynferðisofbeldi felur þannig ekki alltaf í sér líkamlega valdbeitingu né snertingu, heldur er nóg um að einhvers konar kynferðislega hegðun sé að ræða sem ekki var samþykki fyrir (Stígamót.is, kynferðisofbeldi). 

Meira um kynferðisofbeldi:

Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi getur til dæmis birst í formi orðaskipta eða líkamstjáningar. Andlegt ofbeldi á sér margar birtingarmyndir, til dæmis en ekki takmarkað við:

  • Að uppnefna og gera lítið úr
  • Öskra
  • Niðurlægja
  • Hindra samskipti við aðra, t.d. skyldmenni eða vini
  • Stjórna hegðun eða klæðaburði
  • Eyðileggja eigur
  • Hóta því að skaða aðra eða sjálfan sig
  • Að láta þolenda efast um upplifun sína 

Andlegt ofbeldi getur átt sér stað samhliða líkamlegu ofbeldi eða ofbeldið byrjað sem andlegt en leitt til líkamlegs. Andlegt ofbeldi getur einnig átt sér stað þó það hafi aldrei verið líkamlegt ofbeldi til staðar og dregur það ekki úr alvarleika ofbeldisins. Samband getur verið ofbeldisfullt og það haft mjög slæmar og afdrifaríkar afleiðingar fyrir þolendur þó ofbeldið sé aldrei líkamlegt. 

Gaslýsing er til dæmis tegund af andlegu ofbeldi sem getur verið mjög falin en er engu að síður ofbeldi og getur haft miklar afleiðingar á þolenda. Gaslýsing getur grafið undan veruleika þolenda,til dæmis þar sem gerandi afneitar staðreyndum og tilfinningum þolenda, til þess að stjórna manneksjunni. Meira um gaslýsingu hér:  Andlegt ofbeldi | Sjúkást (sjukast.is)

Meira um andlegt ofbeldi:

Líkamlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi er þegar afli er beitt gegn öðrum einstakling, sama hvort líkamlegur skaði hlýst af því afli eða ekki. Það er að ofbeldið er ofbeldi þrátt fyrir að það sé ekki sársaukafullt og skilji ekki eftir sig för eða marbletti. Líkamlegt ofbeldi er einnig þegar haldið er aftur af líkamlegum þörfum einstaklings eða þegar einstaklingur fær ekki þá líkamlegu þjónustu sem hann þarfnast. 

Meira um líkamlegt ofbeldi:

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi er beitt í gegnum stafræna miðla eða tæki. Birtingarmyndir þess eru ólíkar og geta verið myndir eða texti sent með skilaboðum, tölvupósti eða í gegnum samfélagsmiðla. Stafrænt ofbeldi er sem sagt ofbeldi sem felst í notkun tækja og tækni. Stafrænt ofbeldi felur meðal annars í sér áreitni, fjárkúgun, hótanir, auðkennisþjófnað, dreifingu á persónulegum gögnum og dreifing á ljósmyndum og myndböndum án samþykkis (Stafrænt ofbeldi gegn konum á Nörðurlöndum).

Meira um stafrænt ofbeldi:

Fjárhagslegt ofbeldi

Fjárhagslegt ofbeldi er þegar einhver svíkur af þér peninga, tekur peningana þína af þér, neitar að láta þig fá peningana þína eða stjórnar hvernig þú notar þinn pening ( Fjárhagslegt ofbeldi (112.is)). Fárhagslegt ofbeldi getur birst með ýmsum hætti, til dæmis sem en ekki takmarkað við:

  • Að gerandi skammti þér pening af sameiginlegum fjárhag
  • Að þér sé neitað um aðgang að þínum eigin pening, til dæmis í gegnum heimabanka
  • Að fela eða leyna pening sem þú átt rétt á
  • Að nota peninga til þess að stjórna
  • Að taka lán í þínu nafni án þíns leyfis

Fjárhagslegt ofbeldi getur þá einnig birst sem hömlun á því að einstaklingur geti aflað sinna eigin tekna, til dæmis með því að koma veg fyrir að einstaklingur komist til vinnu eða verða til þes að þú missir vinnuna þína. 

Meira um fjárhagslegt ofbeldi:

Mikilvægt efni

Tenglar á frekari upplýsingum

Scroll to Top