Notkun á hugtökunum heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum er nokkuð frjálsleg og oft notuð til skiptis í daglegum samskiptum. Heimilisofbeldi getur verið af ýmsum toga og í hverju tilfelli er oft um fleiri en eina tegund ofbeldis að ræða. Einnig er algengt að form/birtingarmyndir ofbeldis skarist, þannig er til dæmis líkamlegt ofbeldi einnig andlegt ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi er jafnframt líkamlegt í flestum tilfellum, en getur verið t.d. að þvinga fólk til að horfa á klám, að vera með kynferðislegar aðdróttanir eða að tala á óviðeigandi kynferðislegan máta. Formi og aðdraganda ofbeldisins má oft lýsa sem ákveðnum ofbeldishring, þar sem spennan í sambandinu magnast upp, endar með einhvers konar sprengingu, svo fellur allt í dúnalogn („hveitibrauðsdagarnir“) og allt er frábært. Svo byrjar spennan aftur að byggjast upp og hringurinn rúllar.
Andlegt ofbeldi getur birst í formi orðaskipta eða í formi líkamstjáningar. Meðal þess sem gerandinn notar er að öskra, uppnefna, hóta, ógna, niðurlægja, gagnrýna og telja makanum trú um að hún/hann sé geðveikur og ruglaður og reynir að gera makann svo háðan sér að viðkomandi þori ekki úr sambandinu. Afleiðingar andlegs ofbeldis sitja gjarnan lengur í þolandanum, miðað við afleiðingar líkamlegs ofbeldis. Örið situr eftir á sálinni og er ekki sjáanlegt svo oft er erfiðara að meðhöndla það.
Líkamlegt ofbeldi er þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi. Þá skiptir ekki máli hvort líkamlegur skaði hlýst af eða ekki. Algengt er að líkamlegu ofbeldi sé beitt eftir að andlegt ofbeldi hefur átt sér stað í skemmri eða lengri tíma. Alvarlegasta afleiðing líkamlegs ofbeldis er ef annar aðilinn myrðir maka sinn.
Kynferðisofbeldi á sér bæði stað í nánum samböndum en einnig á meðal ókunnugra.
Það telst kynferðislegt ofbeldi ef annar aðilinn ákveður að stunda kynmök hvort sem er með maka sínum eða öðrum aðila ef þolandinn er drukkinn, undir áhrifum fíkniefna, sofandi, hræddur við að neita um þátttöku í kynlífi, of gamall, of ungur eða er háður þeim sem krefst kynmaka.
Afleiðingar kynferðisofbeldis geta komið fram strax en líka síðar, og geta verið líkamlegar, andlegar og/eða félagslegar.
Líkt og heimilisofbeldi á það sér margar birtingarmyndir. Þær helstu eru:
Stundum getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvort kynferðisleg áreitni á sér stað. Samkvæmt lögum er skilgreining á kynferðislega áreitni sem kynferðislega hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
Nauðgun er kynbundið ofbeldi. Það eru oftast karlar sem nauðga konum, börnum og öðrum körlum en vert að taka fram að konur nauðga líka. Nauðgun er kynferðislegt ofbeldi þar sem einhver þrengir sér eða gerir tilraun til að þrengja sér inn í líkama annarrar manneskju gegn vilja hennar og brýtur þar með sjálfsákvörðunarrétt og sjálfsstjórn hennar á bak aftur.
Sifjaspell er oft skilgreint sem allt kynferðislegt atferli milli einstaklinga, sem tengdir eru tengslum trausts, og þar sem annar aðilinn vill ekki slíkt atferli, en er undirgefinn og háður ofbeldismanninum á einhvern máta.
Stafrænt ofbeldi í nánum sambaöndum er þegar ofbeldinu er beitt í gegnum tæki eins og síma og tölvur. Þetta er gert með því að senda skilboð í gegnum samfélagsmiðla, tölvupóst eða síma. Einnig reynir maki að stýra hverjir eru vinir makans á samfélagsmiðlum, fylgist með ferðum makans í gegnum staðsetningarbúnað. Þrýstir á makann að senda sér kynferðisleg skilaboð eða myndir. Hótar a birta efni af makanum á netinu og/eða tala illa um hann á samfélagsmiðlum.
Afleiðingar stafræns ofbeldis eru margvíslegar. Að hafa yfirvofandi áreitið stöðugt yfir sér er mjög streituvaldandi og auk þess upplifa þolendur ótta, reiði, kvíða og þá tilfinningu að þeir hafi ekki stjórn á eigin lífi.
Fjárhagslegt ofbeldi er leið til að stjórna makanum í gegnum fjárhag og getur m.a. falist í því að makinn ákveður hvað hinn aðilinn í sambandinu má og má ekki kaupa, bannar makanum að vinna, tekur launin af honum, skammtar makanum pening, skráir skuldir á makann en eignir á sjálfan sig, heldur upplýsingum um stöðu fjármála frámaka sínum og ráðstafar sameiginlegum fjármunum í óþarfa eins og áfengi, fíkniefni eða eigin áhugamál án þess að ræða það við makann.
Hætta er á að þolandinn einangrist, missi sjálfstæði sitt og finnst hann eiga erfitt með að yfirgefa gerandann þar sem hann er háður gerandanum fjárhagslega.