Þetta er konan sem barði mig í mörg ár og beitti mig og bræður mína andlegu ofbeldi alla okkar æsku og gerir enn.
Það eru eflaust margir sem hugsa með sér hvers vegna við systkinin, öll orðin fullorðin, viljum lítil afskipti hafa af móður okkar. En fæstir vita söguna á bak við það og hversu mikil áhrif þetta hefur haft á okkur.
Ég segi hér sögu útfrá mínu sjónarhorni og mínum upplifunum sem poppa aftur og aftur upp í hausinn á mér og gefa mér skýrari merki um að það er ekkert sem getur réttlætt það að láta börnunum sín líða illa, vera með stöðugt samviskubit og lifa í ótta við að koma heim og vita aldrei hvernig tekið sé á móti þeim.
Ég var aðeins 8 ára gömul þegar ég heimsótti mömmu mína í fyrsta skiptið af mörgum upp á geðdeild. Ég velti því svo sem ekki mikið fyrir mér þá, enda var engan greinamun hægt að gera á starfsfólki og sjúklingum á þeirri deild. Engir hvítklæddir læknar eða hjúkrunarfólk. Svo það var ekkert fyrir 8 ára gamla lífsglaða og káta stúlku að skilja þar.
Árin liðu og við fluttum frekar oft, við fjölskyldan, sem samanstóð af mömmu og pabba sem skildu fyrir mörgum árum, mér og tveimur eldri bræðrum. Ég fékk að kynnast fjórum grunnskólum, eignaðist nýja vini sem var gaman þar til ég þurfti að flytja aftur og skipta um skóla. Ég man að ég var ekkert sérstaklega frjáls krakki og gat lítið gert sem veitti mér gleði og mátti í raun mjög lítið gera og var bannað að gera flest. Pabbi var sjómaður og mamma var því heima og hafði valdið þar. Hún hafði svo mikið vald að henni tókst að svipta okkur frelsinu sem felst í því að vera lífsglatt og áhyggjulaust barn.
Áður en ég vissi af var ég orðin unglingur og það var þá sem hlutirnir fóru að gerast. Ég byrjaði snemma að neyta áfengis og dvelja næturlangt að heiman. Sennilega hef ég verið á flótta án þess þó að gera mér grein fyrir því. Þetta er svo sem ekki frásögu færandi nema fyrir það að móttökurnar sem ég fékk þegar ég loksins hafði mig í að fara heim voru alls ekki fallegar. Fyrsta sem heyrðist: Hvar í andskotanum hefur þú verið? Og áður en ég vissi af var hún búin að rífa í hárið á mér svo fast að hárlufsurnar urðu eftir í lúkunum á henni. Ég var dregin inn í herbergi á hárinu, hent þar inn og þar héldu áfram barsmíðar, svívirðingar og skammir sem gáfu mér aldrei tækifæri á að komast undan né heldur að svara fyrir mig. Ég átti þetta sjálfsagt skilið, því ég hafði óhlýðnast mömmu. En átti ég þetta skilið í mörg ár og í hvert skipti sem henni var misboðið? Ég ber þess einmitt merki á einni fjölskyldumynd að hafa verið löðrunguð til blóðs og sú mynd prýðir einhverja góða blaðsíðu í ættarbók. En ég þagði til að gera henni til hæfis. Þetta var jú mamma mín og ekki mátti hafa hana að fífli. Allt var fullkomið út á við og mamma var snillingur í að láta eins og ekkert hefði gerst og gerði það. Aldrei man ég eftir að hún hafi séð eftir því sem hún gerði og sýnt sóma sinn í að biðjast afsökunar á þessu atferli sínu. Eflaust hefur hún getað falið sig bak við það að hún væri bara veik og hefði þá leyfi til að leggja á mig hendur og kalla mig illum nöfnum. Eins og t.d. hóra, það er einmitt eitthvað sem 14 ára gömul unglingsstúlka elskaði að heyra frá móður sinni.
Einhverra hluta vegna tókst mér að komast í gegnum þessi ár og acta bara nokkuð cool. En innst inni var lítil stelpa með kramið hjarta í leit að móðurást.
Árin liðu og ég óx úr grasi eignaðist mann og með honum þrjú falleg og dásamleg börn. En á fullorðinsárunum hefur ekkert lát verið á andlega ofbeldinu sem virðist sennilega ekki linna fyrr en kerlan er öll. Hún hefur margoft reynt að sundra okkur hjónum sem og bræðrum mínum og þeirra mökum. Hún virðist ekki geta sleppt af okkur takinu og leyft okkur að vera frjáls og hamingjusöm. Í hennar augum erum við og munum alltaf vera vonda fólkið sem er svo nógu gott ef það gerir allt sem henni þóknast. Hún hefur aldrei samglaðst okkur, hvatt okkur til dáða né haft nokkra trú á okkur. Á unglingsaldrinum óskaði ég þess heitast að henni myndi takast að svipta sig lífi, sem hún hótaði margoft og reyndi í einhver skipti, ef við gerðum ekki það sem henni þóknaðist. En í dag held ég í þá veiku von að hún geri sér grein fyrir sínum veikindum, viðurkenni þau og öðlist fullkominn bata og að á endanum finni ég þessa móðurást sem mig alltaf skorti. En eftir því sem árin líða veit ég að það er borin von því það er alls ekki auðvelt að finna fyrir væntumþykju í garð einstaklings sem svipti mann barnæskunni og unglingsárunum.
Í dag hef ég stígið þau skref að byrja í ráðgjöf hjá Aflinu sem eru samtök fyrir fólk sem hefur orðið fyrir heimilis eða kynferðisofbeldi. Þar er unnið óeigingjarnt starf sem er að kostnaðarlausu og hef ég fengið ráðgjafa sem ætlar að hjálpa mér að vinna úr þessu máli. Ég er líka að vinna í því að láta gamlan draum rætast sem tekinn var frá mér í æsku með stöðugu niðurbroti og þar af leiðandi mjög skertri sjálfsmynd. Ég er alveg staðráðin í því að með góðri aðstoð muni ég standa uppi sem sigurvegari í mínu lífi og vera sá lífglaði einstaklingur sem þessi litla 8 ára gamla stelpa var.
Ég vil þó meina að svona lagað geti líka kennt manni að vera meira meðvitaður um sjálfan sig og sína veikleika.
Í dag þakka ég fyrir að hafa komist á þann stað sem ég er á í dag. Það er ríkidæmi og Guðsgjöf að eiga þrjú heilbrigð börn, njóta þess að sjá þau gleðjast, getað glaðst með þeim og veitt þeim þá móðurást sem þau þurfa og mig skorti.
Það eru forréttindi sem ég er og verð ævinlega þakklát fyrir.