Sannleikur lífs míns

Árið 2007
Ég er í Mexico, innilokuð í 9 mánuði, niðurdregin og þunglind. Að drukkna í ranghugmyndum um hvað sé rétt og hvað ekki.

Fjölskyldan heldur að ég sé að lifa lífinu til fulls og að skemmta mér konunglega, sem er svosem ekkert skrýtið því ég hef aldrei gefið þeim neina ástæðu til að hafa áhyggjur.

Mín vandamál eru djúpt grafin undir stolti og hræðslu um höfnun.

Árið 2012

Í dag er ég 22 ára, 2ja barna móðir og trúlofuð einum yndislegasta manni sem finnst getur, ég er að vinna í mínum málum þó svo ég sé ekki komin svo langt að ræða við foreldra mína og systur um það sem átti sér stað í Mexico þá er ég þó farin að geta hugsað um þá atburði og reynt að gera mér grein fyrir að ég hafi ekki átt í neinni sök.

Það er víst gerandinn sem að ber þá vanvirðingu og hatur gagnvart þolandanum hvort sem þolandinn sé ókunnugur eða heitt elskaður. Á einn eða annan hátt kenni ég ennþá sjálfri mér um þessa hrikalegu hluti þó svo að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það sé rangt. En þannig virkar víst bæling.

Ég varð fyrir ofbeldisfullum manni þegar ég var 15 ára, við kynntumst í gegnum internetið og hann var 9 árum eldri en ég. Hann var allt sem ég óskaði mér, heillaði foreldra mína og ég varð ástfangin. Allt frá því að við kynntumst var hann yndislegur og lofaði mér öllu því besta í heiminum, ást og umhyggju, kærleik og réttlæti, trausti og sannleika, en það sem verra er, er að 15 ára barn  getur engan veginn gert sér grein fyrir því hvernig eðlilegt samband sé og því gat hann tosað í mína strengi eins og honum sýndist.

17 ára

Ég er flutt til Mexico, til hans. Hann gjörbreytist, umturnast og er alráðandi mínu lífi og veruleika. Ég er ekki lengur Ég, ég er Hann og hans vilji. Ef ég vil ekki, þá er ég ósanngjörn og leiðinleg. Barnaleg að skilja ekki hvernig „eðlilegt“ samband virkar og að ég skuli ekki skilja að hann sé þreyttur eftir vinnu og að ég eigi að þrífa eftir hann og vini hans og partýin þeirra. Að ég skuli skipta mér af því hvar hann sé og hvað hann sé að gera þegar hann hverfur og kemur ekki heim fyrr en um morguninn dauða drukkinn og ælandi út um allt. Að ég skuli voga mér að spyrja hann afhverju hann haldi sífellt framhjá mér með 12-14 ára ungum stúlkum. Hvers vegna ég megi ekki eiga vini og afhverju vinir hans séu að fylgjast með því við hverja ég tala á netinu og koma í veg fyrir að ég geti yfir höfuð kynnst fleirum. Afhverju ég megi ekki fara út úr húsi nema í hans fylgd, og ef einhver vogar að líta við mér, að þá sé það mér einni að kenna fyrir að daðra. Og hvernig hann getur sagt við mig að ég sé heimsk og vitlaus að fatta ekki neitt og geta ekki talið dollara og gert mér grein fyrir verðmunun á pesosa og krónu. Og hvernig hann getur umturnast á sekúndubroti og orðið yndislegur á ný, gefið mér blóm og gjafir og grátið hjá mér í fanginu og sagst elska mig og að honum þyki þetta svo leitt. En svo endurtekið sig aftur og aftur.

Það eru svo margar stundir sem ég skil ekki, eins og afhverju allt var mér að kenna og afhverju hann var alltaf pirraður útí mig þegar ég bara sat og gat ekkert gert nema hlýtt honum. Hvernig í ósköpunum getur maður á þrítugsaldri komið svona fram við barn á sautjánda ári og ætlast til þess að það viti hvað hann hugsar..

Ég var orðin svo dofin af allri þessari tilfinningaflækju að ég var nánast hætt að borða. Orðin 48 kíló, 163 cm. Svengdin hjálpaði mér að gleyma tilfinningunum og andlega sársaukanum sem ég var að ganga í gegnum og því borðaði ég ekki.

Ég svaf á daginn og vakti á næturnar því ég var hrædd við að sofa við hlið hans því ég vissi að ef það væri eitthvað sem hann langaði að gera þá hefði ég ekkert um það að segja. Og ef að ég var of þreytt til að vaka, þá svaf ég á sófanum.

Til að nefna annað þá vann hann fyrir Mafíuna og skuldaði henni, og þeir voru farnir að hóta því að koma heim og taka fingur og annað, sem betur fer varð ekki af því en samt sem áður var það ég sem að sat heima alla daga og beið eftir óvæntum uppákomum á meðan hann fór út að vinna.

Ég laug að fjölskyldu minni til að halda þeim frá sársaukanum sem að fylgir misnotkun og hélt því uppi blogg síðu sem að var nánast ekkert nema eintómar lygar og það át mig svoleiðis upp að innan að þurfa að gera þetta, að setja á svið hversu hamingjusöm ég væri, þó ég vissi að ég gæti treyst á þau, sérstaklega mömmu og pabba að standa með mér. Hræðslan við gagnrýni var svo mikil og ég átti svo fáa að, að ég tók ekki áhættuna og mest af öllu vildi ekki að hann yrði reiður og vonsvikinn eins og vaninn var. Svo var alltaf spurningin „Trúir mér einhver?“ Ég hef aldrei á ævinni gefið eins margar gjafir og jólin 2007, ég skammaðist mín svo mikið fyrir að geta ekki verið fullkomin og þurfa að ljúga svona að fjölskyldunni að ég hélt ég gæti lagað það ef ég bara gæfi þeim nóg af gjöfum. Ég get ekki sagt að mér hafi liðið neitt betur, hvað þá seinna um kvöldin aðfangadag þegar við keyrðum til vina hans og ég beið í bílnum í 40 mínútur á meðan hann sat úti með þeim og drakk bjór. Svona gekk þetta.

Ég fór oft með honum í vinnuna, hann flakkaði mikið útum bæinn á bílnum og yfirleitt til Bandaríkjanna. Þegar ég fór með þá beið ég í bílnum, þó svo að hann færi eitthvert inn í marga tíma þá var ég látin bíða í bílnum eins og hundur, hvorki með mat né vatn meðferðis. Mér verður óglatt við það eina að segja frá þessu og ég er fyrst núna að gera mér grein fyrir alvarleikanum og hversu hræðilegur hann í rauninni var. En ég sá það aldrei því hann kom alltaf til baka og lét eins og ekkert væri að og að við værum hamingjusamasta og heilbrigðasta par í veröldinni, klisjukenndur og barnalegur og ég að deyja úr ást, eða það hélt ég.

Það var ekki fyrr en viku áður en ég kom heim að hann sagði mér í reiðiskasti að hann hafi í öll þessi skipti sem að ég fór með honum til Bandaríkjanna að hann hafi verið með fullan bílinn af annað hvort peningum eða dópi. Undir og ofan í sætunum. Ef hann hefði lent í löggunni þá væri ég að öllum líkindum meðsek og vil ekki einu sinni hugsa hvar ég væri núna.

Afbrýðissemi, sjálfsvorkunn og eigingirni yfirtók manninn og ekkert annað komst að, hann einn og sér var búinn að ákveða að við ættum að eignast barn og gifta okkur, ég bæld og með ónýtt sjálfsálit og fyrirlitningu þorði ekkert við því að segja. Ég er bara Guðs lifandi fegin að ég slapp við allt svoleiðis völdum þess að ég kom heim og ég get ekki ýmindað mér hvar ég væri stödd núna ef áætlun hans hefði virkað.

Hann má eiga það að hann barði mig aldrei, en allt annað gerði hann.

Ég dett af og til inní afneitunina sem að fylgir bælingu, og lýg að sjálfri mér „kanski var þetta allt mér að kenna, ég hefði ekkert átt að vera að spyrja afhverju hann héldi framhjá, það er erfitt að vera með mér í sambandi, og svo framvegis“ en ég er orðin nokkuð skörp í því að gera greinarmun á afneituninni og veruleikanum, það eru hlutir eins og að skrifa allar þessar tilfinningar niður og lesa yfir þær, og segja frá og fá stuðning sem að hjálpar manni að komast yfir svona hluti og halda sér í raunveruleikanum.

Það er svo margt sem ég hef um hann og þetta samband að segja og skrifa en ætla að stoppa hér, allavega í bili, en langar að segja hvað ég er glöð að vera kommin heim og þrátt fyrir þessa ömurlegu lífsreynslu og þrátt fyrir hversu niðurbrotin ég ennþá er, að þá fari mér eingöngu batnandi og styrkist með deginum.

Ég er hér fyrir þá sem að þurfa öxl að gráta á, eyru til að hlusta eða félagsskap. Saman komumst við í gegnunm ótrúlegustu hluti því stundum þarf maður bara að opna hjarta sitt og segja frá.

Segðu frá!

Karen Dögg