SAGA SBH

Fyrstu 6 árin voru alveg fullkomin, lék mér eins og hver önnur stelpa í „Mömmó“ og öðrum stelpuleikjum.

10 ára gömul var ég send í sveit til að hvíla mömmu sem átti alltaf við veikindi að stríða. Vildi ekki fara og því síður vera eftir að þangað kom. Átti að vera passa börn en þurfti líka að gæta kúnna því kúasmalinn var með heimþrá, fékk að fara heim því hann grét svo mikið. Ég reyndi að strjúka en það gekk ekki, haft var samband við foreldra mína sem komu og ákváðið var að best væri að venja mig af þessari óþekkt og ég yrði að læra að hlýða.

Var í herbergi með annarri stelpu sem var eldri en ég og hún fór úr sveitinni á undan mér og var ég þá eina utanaðkomandi á heimilinu. Karlinn á bænum var dálítið eldri en frúin og stelpan sem var í herbergi með mér sagði áður en hún fór að ég yrði að vera mjög ákveðin ef hann færi að gera eitthvað sem ég vildi ekki eða svoleiðis; Ég vissi ekkert hvað hún var að fara enda svoleiðis mál ekki rædd á mínu heimili.

Var send þarna aftur næstu 2 sumur og var þá búin að læra að hlýða og taka því sem mér bar. Annar kúasmali var mættur á svæðið og var hann allt sumarið. Karlinn fór að koma inn í stofuna þar sem ég svaf og setjast á rúmstokkinn hjá mér og gera hluti sem ég ekki vildi. Hann sagði mér að svona væru konur og ekkert þýddi að segja frá því engin myndi trúa mér og við konur værum allar eins og „Eva“ – gætum ekki annað. Ekkert þorði ég að segja enda skömmin yfir því sem var að gerast svo mikil að ég vildi ekki tala um það einu sinni, viðurkenndi varla fyrir sjálfri mér að „þetta“ væri að gerast.

Var „þetta“ í gangi þessi tvö seinni sumur sem ég var þarna en þá var 3. vinnumaðurinn mættur, frændi bóndans og komst hann að hvað í gangi var og fékk leiðbeiningar hjá móður sinni sem þekkti til, um hvernig við skyldum stoppa þetta. Hann hjálpaði mér með það og hefði ég ekki getað stoppað þetta án hans hjálpar því hann sýndi karlinum fram á að búið var að segja frá. Konan vissi alveg hvað var að gerast og ásakaði mig, stóð í dyrunum einn morguninn og sagði: „Ég hefði aldrei trúað þessu upp á þig“. Ég fraus alveg. Gömul kona sem var í herbergi við hliðina á stofuna sem hún var alltaf í og hafði ekki samband við fólkið á bænum sagði mér einn morguninn að hún vissi hvað væri að gerast, sér þætti það leitt en hún gæti ekki hjálpað mér, ég myndi skilja það þegar ég yrði stór og bað mig fyrirgefningar.

Ég þurrkaði út alla minningu um það sem skeð hafði en ég fitnaði alltaf mjög mikið á meðan ég var í sveitinni en hríðlagði af á veturna, yfirleitt búin að missa 6-10 kg um áramót. Ég missti einbeitinguna og gat ekki spilað á píanó en hafði verið að læra á það í nokkur ár, kennarinn spurði hvort eitthvað hefði komið fyrir mig og tárin bara runnu þegar hann missti þolinmæðina vegna óþolandi nemanda. Öll sjálfsmynd var í molum, aðallega ÓHREIN og ekki hægt að þvo „þetta“ af sér sérstaklega ekki sálinni. Heilaþvotturinn að svona væru konur, „allar Eva“ hafði djúp áhrif á upplifunina hver ég væri og að konur væru allar fyrirlitlegar, réttminni en karlar.

Var meira og minna frosin öll unglingsárin var ekki í samböndum við stráka enda alltof skítug til að nokkur vildi mig að eigin áliti en átti vinkonur og kunningja. Missti einbeitingu og áhuga á námi fór í vonlaust samband með strák sem ég hafði engar tilfinningar til, sleit því eftir 2 ár og fór í enn verra samband við vímuefnaneytanda þar sem var andlegt og líkamlegt ofbeldi, m.a. morðtilraun, sleit því þegar ég vildi frekar verða drepin en vera til á þennan hátt eða „lifandi dauð“.

Eftir að ég sótti um skilnað og hann fluttur út kom hann heim til mín og tilkynnti mér að hann ætlaði að nauðga mér sem hann og gerði. Loksins var ég tilbúin að verja mig og kærði, því ég ætlaði alls ekki að fá hann í heimsókn hvorki í þessum erindagerður eða öðrum, ALDREI AFTUR. Ég þurfti í læknisrannsókn hjá gömlum karli og var það hálfgerð nauðgun líka, en sem betur fer er þetta breytt í dag. Lögreglukonan sem fylgdi mér sagði að það hefðu fleiri kvartað en þau hefðu því miður ekki önnur úrræði ennþá. Hann viðurkenndi og hlaut dóm. Þegar dómur féll var hann farinn í áfengismeðferð og hringdi meðferðaraðili hans í mig og bað mig að fella kæruna því hún væri að eyðileggja fyrir honum meðferðina og að hann næði árangir þar sem hann vissi ekki hvað tæki við eftir meðferð. Meðferðaraðili þessi spurði mig ekki að neinu og hef ég aldrei skilið þessi vinnubrögð hjá þeim á Sogni, aðspurður sagðist hann bara vera að gæta hagsmuna skjólstæðings síns en hefði ekkert með mig að gera og mátti því koma fram við mig eins og hann vildi.

Það vakti líka furðu mína þegar þessi eiginmaður var í 1. áfengismeðferðinni, en þá ætlaði ég að skilja við hann eftir árssambúð, að þá hringdi geðhjúkrunarfræðingur á Vífilstöðum og bað mig að ræða við hann því hann vildi ekki taka meðferð eða tala við neinn nema ég talaði við hann. Þarna tjáði heilbrigðisstarfsfólk mér að líf mannins væri í mínum höndum og þar með ábyrgð. Auðvitað var fjölskylda mín með stöðugar áhyggjur þó ég leyndi hversu slæmt ástandið var og varð ég að ljúga að þeim (skv. ráði geðhjúkr.fr.) til að hitta hann. Ég hefði betur staðið við neiið þá.

En mér tókst að rífa mig upp, fór erlendis í nám, kom heim og stofnaði fjölskyldu og á 3 stelpur sem ég hef reynt að verja og passa eins og sjáaldur augna minna. En hef nánast ekki treyst neinum fyrir þeim,og það var ekki löngu áður en ég varð barnshafandi sem ég fór til sálfræðings þar sem ég bara lá á bekknum og sagði ekkert í marga tíma þangað til þessi minning kom smátt og smátt upp á yfirborðið. Ég hef reynt að vinna úr þessari reynslu bæði ein og með hjálp annarra sem ég er afar þakklát fyrir.

Fór í hóp hjá Aflinu fyrir ári síðan því mér fannst vanta að deila reynslu minni með öðrum sem hafa sömu reynslu. Er nú ein af hópleiðbeinendum þar og vona að ég geti einhverjum hjálpað sem því miður hefur sömu reynslu því ég veit að það hefur hjálpað mér og svo mörgum öðrum.

Sumir predika að hægt sé að fyrirgefa allt og maður skapi líf sitt sjálfur og beri ábyrgð á því en spurningin mín er:

Losna ég einhvern tímann við sorgina af því að ég veit ekki hver hreina stelpan var eftir að „þetta“ gerðist né hver hún hefði orðið, kem aldrei til með að finna þessa stelpu sem týndist eða dó? Held ekki, er samt sátt við það sem er í dag og það sem ég hef.

SBH