Nýtt líf eftir 50 ár

Ég fæddist í heimavistarskóla þar sem móðir mín var í nokkur ár skólastjóri og að mestu eini kennarinn í u.þ.b. 40 barna skóla. Skólahaldinu fylgdi sauðfjár- og kúabúskapur sem faðir minn sinnti um. Sökum mikilla anna foreldra minna var ég að miklu leyti í umsjá matráðskonu skólans og stúlkna sem fengnar voru til aðstoðar. Ég tel að ég hafi einhverra hluta vegna ekki náð að tengjast móður minni tilfinningalega sem barn.
Ég hef líklega verið sex ára. Einn þáttur í dagskrá jólaskemmtunar í samkomuhúsi sveitarinnar var að láta mig standa við púlt og lesa upp sögu.

Ég hef sennilega verið að verða tíu ára þegar ég hætti að væta buxur.
Ég gæti hafa verið níu eða tíu ára þegar ég fékk að fara í nokkurra daga heimsókn til afa og ömmu sem bjuggu á sveitabæ í öðrum landshluta. Ég var send þangað með rútu og gisti í húsakynnum frænda míns og fjölskyldu hans. Á bænum var gamall maður sem hafði verið tekinn í fóstur sem barn, hafði alist upp á bænum og tekið þátt í lífi fjölskyldunnar gegnum árin. Þessi maður lokkaði mig inn í herbergi, káfaði og strauk mér þar til ég sleit mig lausa og skaust út úr herberginu. Sagði engum frá.
Minningar lokaðar niðri, tilfinningalegt frost.
Engar vinkonur. Fá tækifæri til að leika við önnur börn nema eigin systkini.
Heimavistarskóli frá 10-15 ára aldurs. Í skólann með rútu á sunnudagskvöldum, heim með rútunni síðdegis á föstudögum. Stuttu áður en ég fór í fyrsta skipti í skólann var ég send í nokkra daga á bæ í sveitinni til vinafólks foreldra minna. Tilgangurinn var að „venja mig við“. Á bænum bjuggu þrír einstaklingar, allt fullorðið fólk. Þrátt fyrir góðvild þessa fólks var ég skíthrædd og algerlega frosin.
Í skólanum tókst mér að einbeita mér að náminu og ná ágætiseinkunnum. Það bjargaði lífi mínu því allt frá fyrsta degi einkenndist veran í skólanum af útilokun úr hóp ásamt háði og niðurlægingum af hálfu skólasystra. Ég minnist þess ekki að hafa verið spurð í hvernig fötum ég vildi vera í skólanum. Foreldrar voru beðnir að hafa sem minnst samband við nemendur til að þeim „leiddist síður“. Líðanin oft svakaleg. Nánast mállaus lengi. Seinni árin voru nokkrar skólasystur sem gáfu sig að mér og reyndu að vingast við mig, það hjálpaði. Það sem bjargaði mestu var að fara í unglinganám til höfuðborgarsvæðisins því þar með lauk eineltinu.
Ég var 16 eða 17 ára. Heimilisfólkið var í heyskap, sumir úti á túni að sækja hey á vagn, aðrir bak við hlöðu að moka heyinu inn. Þannig háttar til á bænum að enginn sá þegar farandsölumaður kom í hlaðið. Ég var ein inni, sat á eldhúsbekknum til að geta fylgst með þegar fólkið kæmi með næsta heyvagn. Maðurinn kom beint inn og byrjaði að segja eitthvað sem mér þótti ógnandi og mjög óviðeigandi. Mér tókst að skjótast framhjá honum, hlaupa til hinna, láta sem ekkert væri.

Ég fór smátt og smátt í það að vinna, gera gagn, til að fá hrós eða til að ganga fram af foreldrum mínum og það þróaðist út í að vinna til að mér liði betur. Eg fékk útrás. Þeim mun meira sem ég vann, þeim mun betur leið mér. En samt var alltaf eitthvað sem breyttist ekki. Ég reyndi að vera fullkomin, tók ekkert að mér nema ég væri viss um að geta unnið það vel og lokið verkefninu helst óaðfinnanlega. Vildi að öllum líkaði vel við mig.
Þoldi ekki að heyra nafnið mitt, vildi helst ekki sjá myndir af mér. Gætti þess alveg frá unglingsaldri að halda þyngdinni í skefjum, borða hollan mat, borða ekki of mikið. Fannst ég alltaf feit og ekki falleg. Varð samt stundum hissa þegar ég leit í spegil og sá manneskju sem var alls ekki ljót því innst inni fannst mér eitthvað allt annað.
Vildi vera ósýnileg. Fannst ég vera öðruvísi, var ég vitlaus? Heimsk? Fannst ég ekki skipta neinu máli og ekkert sem ég sagði skipti máli. Mér var alveg sama um allt, hafði engar skoðanir á hlutunum eða vissi ekki hvaða skoðanir ég hafði. Nema þegar ég eignaðist börnin, þá var mér ekki sama. En eftir því sem þau stækkuðu og komust á unglingsaldur, þeim mun erfiðara átti ég með samskipti við þau og fannst það oft erfitt. Þetta var samt eitthvað sem ég réði ekki við, tilfinningarnar voru bara þannig að ég gat ekki verið ég sjálf gagnvart þeim, einhver spenna í mér.
Ég var krakki þegar ég ákvað að hætta að brosa og ætlaði ekki að hlæja framar. Skemmtilegt, hvað er það? Að njóta, hvað er það? Finnst mér eitthvað? Slaka á, hvað er það? Ég má ekki slaka á. Beita sjálfa mig hörku. Óútskýrð vanlíðan. Alltaf á varðbergi. Treysti fáum og sleit vinasamböndum, lítil lífsgleði, stöðugt samviskubit, flótti, alltaf sammála öllum, stöðugur ómeðvitaður ótti, mikil spenna, líka í líkamanum, félagsfælni, skert minni og einbeiting, pirringur, sjálfsásakanir, hélt að þetta ætti að vera svona, vissi ekki af hverju ég var svona, versnaði með árunum. Sært dýr bítur frá sér. FannAflið eftir leit að hjálp í 50 ár og eignaðist nýtt líf.
Ég er óendanlega þakklát fyrir alla hjálpina og fyrir að geta alltaf leitað íAflið.