Það er enginn skömm að leita sér hjálpar þó svo að ég sé karlmaður

Ég átti góða æsku framan af. Ég man hvað ég elskaði sumrin, ég var svo spenntur þegar ég fór að sofa á kvöldin því daginn eftir færi ég að veiða eða út að leika mér.

Á veturnar þegar fullorðna fólki bölvaði snjónum hlakkað ég til að leika mér í honum. Hlaupa úti þar til mér yrði svo kalt að ég varð að hafa fæturnar á ofni til að hlýja mér, og mamma lét volgt vatn renna á hendurnar á mér svo ég fengi tilfinningu í þær.

En svo byrjaði skólinn.

Fyrsta daginn skoppaði ég í skólann glaður og sæll með nýju skólatöskuna mína. Það var dagurinn sem eineltið byrjaði.

Alla mína skólagöngu var ég lagður í einelti. Ég var uppnefndur, laminn, gerður að athlægi. Ég væri heimskur, ljótur og margt verra en það var sagt við mig.

Ég varð hlédrægur og inn í mér. Átti enga vini.

Þegar ég var 14 ára gamall man ég að kennarinn minn kallaði á mig inn í skólastofu.

Hún bað mig að fara fram og athuga hvað klukkan væri, ég sæi það á veggnum frammi.

Þegar ég kom inn aftur var hún búin að hneppa frá sér að framan, ég man ég horfði á hendurnar á henni, hún var með úr á úlniðnum. Ég man ég hugsaði; „Afhverju var hún að senda mig fram til að athuga hvað klukkan væri þegar hún er með úr?“ Svo man ég lítið meira nema hún lét mig fara alla leið.  Þetta var ekki í eina skiptið sem þessi kennari misnotaði mig.

Það er sagt þegar ungir drengir eru misnotaðir af konum að þeir eigi að vera ánægðir með að eldri kona sé að „kenna“ þeim.  Kjaftæði. Þetta var viðbjóður.

Þegar ég varð eldri kynntist ég manni. Hann var töluvert eldri en ég, og hann talaði við mig eins og ég væri vinur hans. Ég þráði vináttu. Skilning. Samveru.

Fyrst var þetta fínt, hann bauð mér oft að koma í heimsókn. Við fórum niður í kjallara heima hjá honum en þar var hann með „skrifstofu“.

En svo byrjaði það. Hann fór að leita á mig og ég fraus. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég vildi þetta engan veginn en ég gat ekkert sagt né gert. Hann gekk sífellt lengra og stundum lá við að ég ældi þegar hann var að misnota mig.  Hann hafði eitthvað vald yfir mér. Kannski var ég svo brotinn fyrir að ég virtist alveg viljalaus. Ég vildi ekki fara til hans, samt gerði ég allt sem hann sagði mér að gera.

Þessi maður eyðilagði mig.

Þegar hann dó og ég las minningagreinarnar um hann var talað um hann sem mannvin. Sem öðling. Sem góðum manni. Ég þekkti ekki þann mann, ég þekkti bara skrímslið sem bjó innra með honum.

Eineltið var skelfilegt, misnoktun kennarans var viðbjóðsleg, en mér fannst verst hvað þessi maður gerði. Hann vingaðist við 15 ára gamlan dreng, sem var brotinn og vinaþurfi og notaði hann svo til að svala óeðlilegum löngunum sínum án þess að blikna.  Hvaða „mannvinur“ gerir það?

Ég hélt áfram með líf mitt, brotinn og bældur. Þegar ég heyrði strákana í kringum mig tala um kynlíf, hversu gott það væri og gaman varð ég reiður. Afhverju gat ég ekki notið þess líka? Afhverju þurfti þessi viðbjóður að koma upp í huga mér í hvert skipti sem ég svaf hjá konu?

Ég gifti mig, eignaðist 2 yndisleg börn, en mér leið hörmulega. Ég lék hlutverk mitt áfram sem eiginmaður og faðir, en var að deyja innan í mér.

Einn daginn sat ég með töflubox fyrir framan mig og langaði að klára þetta. En eitthvað hélt aftur af mér. Kannski þessi 2 börn sem ég á, ég þarf að vernda þau.

Þannig ég pantaði mér tíma hjá Aflinu á Akureyri.

Það var rosalega erfitt að koma þangað, ég var svo hræddur og stressaður, ég var viss um að allir myndu sjá á mér langar leiðir hvað hefði komið fyrir mig og afhverju ég væri þarna.

En ég kom aftur og aftur, og mér fór að líða betur, og mig hætti að langa til að deyja, mig langaði orðið til að lifa.

Í dag sinni ég áhugamáli mínu, vinn vinnuna mína, hjálpa börnunum með lærdóminn, eignast vini, og er farinn að geta talað við ókunnuga án þess að vefjast tunga um tönn og hverfa inn í mig.

Það er ekki skammarlegt að leita sér hjálpar þó ég sé karlmaður.