Ég kýs að lifa – án þagnarinnar

Ég sem var svo vel á veg komin eftir alla vinnuna sem ég hafði lagt í sjálfa mig eftir kynferðisofbeldið sem tveir menn beittu mig á barns- og unglingsaldri. Ég taldi mig vera komin yfir versta hjallann eftir margra ára vinnu í sjálfri mér. Þar til mér var nauðgað!

Allt erfiðið og tíminn sem ég hafði lagt í að koma tilfinningalífi mínu á sem réttastan kjöl eftir kynferðisofbeldið úr æsku minni fyllti mig stolti. Ég taldi mig vera lánsama. Heppna að hafa haft dómgreind og getu til að leita eftir og aðstoða mig sjálf í gegnum eftirmála ofbeldisins svo ung að aldri. Ég taldi mig geta verið fyrirmynd allra sem þolað máttu sömu þrautir og ég. Sannfæring mín sagði mér að ég gæti verið hvatning fyrir alla þá sem ákváðu að láta þar við sitja, vera álút og lifa með þögninni.

Þessu trúði ég statt og stöðugt þar til ég upplifði sjálfa mig í þögninni að nýju. Það sem átti sér stað kom svo brátt að, líkt og elding úr heiðskýru lofti. Ég var hamingjusöm, sátt og sæl með mig og minn stað í lífinu þar til mér var nauðgað. Sá sem braut á mér náði með einu höggi að fella mig niður af toppi á tilverunnar niður á botninn á ný. Botninn sem var mér svo kunnulegur, þar sem tilveran einkenndist af myrkri. Staðurinn þar sem maður tók eitt skref áfram og þar næst tvö aftur á við. Í mörg ár hafði ég dvalið þar áður, en í þetta skipti ákvað ég að skrefin fram á við yrðu fleiri en þau sem ég tæki til baka!

Það er sama hversu hart skal barið á mér, ég mun aldrei lúta fyrir þögninni á ný. Mér var nauðgað, en óvinur vinn var ekki gerandinn, heldur þögnin. Óvinurinn var sálartetur mitt sem sagði mig vera fórnarlamb. Ég kýs hamingju, ég kýs þrautseigju, ég kýs að hafa ákvörðunarvald um örlög mín og afstöðu til lífsins. Ég kýs að lifa, án þagnarinnar!