Aðeins 5 ára

Ég var fimm ára fyrst þegar það gerðist.  Bróðir mömmu bjó hjá okkur.  Hann hafði lent í slysi og þurfti hjálp og mamma og pabbi vildu hjálpa honum.  Hann þakkaði fyrir sig með því að misnota mig allan tímann sem hann var þarna. Því miður þurfti hann að vera þarna í marga mánuði.  Hann fór með mig inn á bað, læsti og gerði svo það sem hann vildi. Enn í dag man ég ekki allt sem gerðist, kannski sem betur fer.  Í þessum skrifum tala ég um þessi atvik sem eina upplifun.

Aftur gerðist þetta þegar ég var 12 ára.  Þá var það barnaskólakennari.  Hann gerði það sem betur fer bara einu sinni.  Þetta skipti er mér samt ferskara í minni og ég man hverja mínútu.  Hverja viðbjóðslega snertingu.
Mín þriðja upplifun var hrikalegri.  Mér var nauðgað ítrekað í 5 sólarhringa.  Aftur og aftur og hvert skipti verra en það fyrra vegna þess að ég var svo tætt og rifinn og sárin opnuðust alltaf aftur og aftur.  Eftir þessa hræðilegu daga og nætur var ég flutt af öðrum aðila á spítala, þá var ég komin með 42 °C hita, rænulítil og mjög svo kvalin.  Að sjálfsögðu var ég komin með bullandi sýkingu og þurfti svo seinna í margar aðgerðir.  Læknarnir reyndu það sem þeir gátu til að laga skaðann en allt kom fyrir  ekki.  Móðir minni var tilkynnt að ég myndi aldrei eiga börn.  Í mörg ár á eftir þurfti ég að fara reglulega í speglanir og aðgerðir til að hreinsa út blóð, það var eiginlega allt ónýtt innan i mér.
Þegar ég var 27 ára fór ég að lokum í legnám.  Síðan þá er ég alla vega verkjalaus.
Í dag er ég öryrki.  Ég er mjög slæm af vefjagigt.  Bak og mjaðmir eru ónýt.  Ég er með átröskun,  þunglyndi og á erfitt með að eiga samskipti við fólk.  Ég er drulluhrædd við karlmenn og hlýði þeim orðalaust.  Ég sé ekki fram á að ég muni nokkurn tíma fara aftur á vinnumarkaðinn.  Það gerir mig mjög leiða.  Ég vil geta gert gagn.
Ég er alltaf að reyna að þóknast öðrum.  Mér finnst  ég vera skítur, einskis virði,  og að ég eigi ekki rétt á að vera með öðrum og því er ég alltaf að gera eitthvað fyrir aðra, reyna að gleðja þá.  Ef ég geri hitt og þetta fyrir fólk  þá eru meiri líkur á að því líki við mig því að þeim gæti aldrei líkað við mig eins og ég er.  Ef fólk hrósar mér fyrir eitthvað þá brosi ég og þakka þeim fyrir en ég trúi ekki einu orði.

Þessi atvik í minni barnæsku hafa í raun eyðilagt líf mitt.  Ég er ónýt líkamlega, andlega og félagslega.  Núna þegar ég er að nálgast fertugt og á að baki eitt slæmt hjónaband hef ég ákveðið að fara að vinna í þessu.  Ég sé það í dag þegar ég skoða þann tíma sem ég var gift að ég hlýddi öllu sem eiginmaðurinn sagði, allar ákvarðanir  voru teknar honum í vil.  Ég gerði mér ekki grein fyrir þessu fyrr en ég fór að skoða mitt líf og það hvaða áhrif þessi atvik hafa haft á mig.
Í mörg ár var ég reið, ég var bara alltaf reið og það þurfti mjög lítið til að ég missti mig en í dag er ég bara leið og þreytt.  Ég er eiginlega uppgefin.  Það er kannski þess vegna sem ég hef loksins ákveðið að fara að vinna í þessu.  Ég er gagnslaus öðrum á meðan ég er eins og ég er. Ef ég ætla að eiga einhvern séns á þolanlegu lífi þá þarf ég að taka til í hausnum á mér.  Takast á við þessa drauga mína.

Ég hef enn í dag ekki sagt mörgum frá þessu.  Það vita örfáir hvað hefur komið fyrir mig.  Ég er ónýt sál og hef ekki orku eða kjark til að segja frá þessu.  Ég hef verið í sambandi við hana Sæunni hjá Aflinu og hún hefur hjálpað mér alveg ótrúlega.  Það er svo gott að tala við einhvern sem skilur þetta svona vel.  Ég mun kannski eftir einhvern tíma hafa styrk til þess að segja ástvinum frá þessu.  Ég veit það bara að Sæunn mun hjálpa mér í gegnum þetta eins mikið og hún getur og bara það að vita að hún verði mér innan handar er rosalega gott fyrir mitt ónýta sálartetur.
Ég vona að þessi  mjög svo stutta lýsing á mínum aðstæðum geti gert gagn og að þeir sem lesi þetta sjái að það eru svo miklu fleiri en bara lesandinn sem hafa lent í misnotkun og nauðgun.  Það er hjálp að fá.  Það þarf bara að stíga þetta erfiða fyrsta skref sem er að biðja um hana.  Hún er svo sannarlega í boði.