​Hugrenningar brotaþola

Kona er varð fyrir kynferðisofbeldi leyfir okkur að fylgjast með hugrenningum sínum, hún er ekki einsdæmi, heldur er þetta algengt hjá fólki sem lent hefur í ofbeldi. Hún kemur fram undir nafnleynd, og kunnum við henni bestu þakkir fyrir að leyfa okkur að skyggnast inn í hennar heim.

Hræðsla

Var á Facebook áðan að spjalla við systur mína þegar strákur (12 árum yngri en ég)  fór að spjalla við mig.  Hann vildi endilega að við hittumst, hann var mjög ýtinn og mér fannst þetta allt mjög óþægilegt.  Jafnvel þó að ég væri að tala við hann á netinu gat ég ekki sagt nei við hann, ég gaf honum bara óljós svör.  Það er alveg ofboðslega óþægilegt  þegar karlmenn reyna við mig. Ég þori aldrei að neita þeim um nokkurn skapaðan hlut.  Ég verð mjög vör um mig, hrædd, óróleg og langar helst að fela mig einhvers staðar úti í horni.  Það er leiðinlegt að vera alltaf svona hrædd, í hvert skipti sem karlmaður talar við mig verð ég óróleg og bý mig undir það versta.  Ofan á það að vera svona langt niðri eins og ég er núna þá var óþarfi að þetta bættist við.  Ég er það óróleg að ég náði í hundana (á 2 tíkur)og þær munu sofa á gólfinu hjá mér í nótt.  Ég er eiginlega bara drulluhrædd.  Hvernig verður það þegar ég fer út með vinkonum og hef engan til að „passa“ mig.  Ég hef alltaf treyst á að geta sagt að ég væri gift og jafnvel bara farið til mannsins míns  eða kallað á hann. Nú er ég skilin og ég er hrædd og mér líður illa.  Ég sit bara hérna og græt.   Ég efast um að ég verði nokkurn tímann „eðlileg“ nálægt karlmönnum.