Frá upphafi hefur Aflið mætt einstaklingum sem þangað leita á jafningjagrundvelli og rauði þráðurinn í starfinu byggir á því að það fólk sem til okkar leitar er það fólk sem sjálft er sérfræðingar í sínu eigin lífi.  Við lítum svo á að afleiðingar ofbeldisins og það hvernig það hefur haft áhrif á líf fólks séu eðlilegar afleiðingar af óeðlilegum aðstæðum.  Það að vera beittur ofbeldi er aldrei sök þess sem því er beittur og fólk sem hefur verið beitt ofbeldi býr yfir miklum styrk sem það hefur notað til að komast í gegnum ofbeldið og þær afleiðingar sem það hefur haft.

Rannsóknir hafa sýnt að jafningjastuðningur er mikilvægur þáttur í úrvinnslu afleiðinga ofbeldis í bland við stuðning fagaðila og hefur það verið kjarninn í hugmyndafræði Aflsins.  Mikilvægur þáttur í hugmyndafræðinni er að taka mark á reynslu þeirra sem beitt hafa verið ofbeldi án þess að dæma eða skilgreina.  Gagnkvæm virðing og að mæta okkar fólki þar sem það er hverju sinni í lífi sínu er grundvallaratriði í starfsemi okkar og við leitumst við að vera fólki samferða í því ferðalagi sem úrvinnsla aflleiðinganna er. Þannig felst vinnan fyrst og fremst í því að gera einstaklingana meðvitaða um eigin styrkleika og aðstoða þá við að nota þá styrkleika til að breyta og bæta eigin líf.

Í samræmi við þessa hugmyndafræði eru allir ráðgjafar Aflsins líka sjálfir einstaklingar sem beittir hafa verið ofbeldi á lífsleiðinni og hafa unnið með þær afleiðingar sem það hefur haft á líf þeirra.  Þar að auki fara allir ráðgjafar Aflsins í gegnum þjálfunarferli og hafa ráðgjafar okkar víðtæka reynslu og menntun sem nýtist þeim vel í starfi.