Frá upphafi hefur starfsemi sjálfshjálparhópa verið mikilvægur þáttur innan Aflsins.  Hóparnir byggja á því að 4-6 einstaklingar með svipaða reynslu hittast í 15 skipti og ræða um ýmsar afleiðingar ofbeldisins.  Tekin eru fyrir ákveðin umræðuefni í hvert skipti og er hver fundur þrír tímar.  Í hverjum hópi situr svo einn, eða tveir, ráðgjafar Aflsins og halda utan um hópinn.  Allir sem taka þátt í sjálfshjálparhópi gera það á sínum eigin forsendum og stjórna sjálfir í hversu mikla sjálfsvinnu þeir fara og/eða hvaða þætti afleiðinganna þeir vinna mest með. helpinghands með sól

Markmið sjálfshjálparhópana er að einstaklingarnir geti sótt styrk til annarra með svipaða reynslu, til að takast á við þær afleiðingar og erfiðleika sem ofbeldið hefur haft á líf þeirra.  Með því að vinna saman í hópi er einangrun þolenda rofin og á þessum vettvangi myndast grunvöllur fyrir að byggja upp traust, sjálfstraust, að standa með sjáflum sér og að læra að þekkja betur eigin tilfinningar.  Einnig er markmiðið að læra að sá sem beittur er ofbeldinu er ekki ábyrgur, að skoða þær afleiðingar sem ofbeldið hefur haft og heyra aðra lýsa sínum afleiðingum og tilfinningum því það hjálpar einstaklingum oft að skilja betur að þeir eru ekki einir.  Megin markmið hópana er því sjálfstyrking og uppbygging einstaklinganna.

Sjálfshjálparhópar eru þátttakendum að kostnaðarlausu og eru í boði fyrir þá sem hafa nýtt sér einstaklingsviðtöl hjá Aflinu.