Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur gert samning við Aflið samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi til þriggja ára í þeim tilgangi að styðja við og efla starfsemi félagsins gagnvart þolendum ofbeldis. Samningurinn er til þriggja ára og fær Aflið 18 milljónir króna á ári, eða samtals 54 milljónir á samningstímanum. Fyrri samningar hafa verið gerðir til eins árs en með þriggja ára samning geta samtökin skipulagt starfið lengra fram í tímann og eflt það en umsvif samtakanna hafa aukist undanfarið vegna aðkomu að Kvennaathvarfinu og Bjarmahlíð og nú síðast með opnun útbús á Austurlandi.
