Aflið hefur síðustu ár verið með opið hús í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem þetta árið fékk undirtitilinn #HearMeToo. Árið í ár var engin undantekning og var boðið til opins húss þann 6. desember s.l. Vel var mætt og góð stemming.
Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og Dana Ýr hófu leikinn með því að leika nokkurn frumsamin lög fyrir gesti. Flutningurinn fangaði viðstadda svo rækilega að enginn hafði rænu á að taka af þeim mynd. Við biðjumst afsökunar á því.
Því næst steig á stokk Ólöf María Birnu Brynjarsdóttir lífssöguráðgjafi og meistaranemi í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri. Ólöf kynnti efni meistaraverkefnis síns sem fólst í rannsókn á ólíkum birtingarmyndum sjálfsástar og gildi sögunnar í lífi hverrar manneskju. Eftir erindið spjölluðu gestir við Ólöfu um rannsókn hennar en hún er á lokametrunum með meistaraverkefni sitt og mun verja það í byrjun nýs árs.

Því næst flutti Ivan Mendez frumsamið og afritað efni í bland.

Eftir að Ivan hafði heillað gesti með leik og söng, og gestir höfðu aðstoðað við að losa bíla úr sköflum fyrir utan hús, tók Karen Birna Þorvaldsdóttir meistaranemi í sálfræði við Háskólann á Akureyri við og sagði frá rannsókn sinni á upplifun brotaþola af nýjum verklagsreglum lögreglunnar á Akureyri. Að loknu erindi hennar spunnust nokkrar umræður um stöðu brotaþola innan réttarkerfisins. Karen er að leggja lokahönd á meistarverkefni sitt sem byggir á rannsókn hennar.

Að loknum umræðum um verkefni Karenar steig Stefán Elí Hauksson á svið og lokaði kvöldinu með góðri blöndu af frumsömdu efni og afrituðu. Stefán hefur þegar gefið út tvær plötur þótt ungur sé, nú síðast I’m Lost, Please Return If Found. Það er ákaflega ánægjulegt að geta boðið gestum upp á lifandi tónlist flutta af ungu hæfileikafólki hér að norðan eins og Stefáni, Ivani og Fanneyju og Dönu.

Aflið þakkar Fanneyju og Dönu, Ólöfu Maríu, Ivani, Karen og Stefáni Elí kærlega fyrir að koma og gefa af sér fyrir gott málefni, og gestum fyrir að mæta og taka virkan þátt í umræðum.