Aflið hefur átt í góðu samstarfi við skipuleggjendur hátíða víða á Norður og Austurlandi síðustu ár og engin breyting varð á því þetta árið.

Aflið var með vaktir og viðveru á Bíladögum á Akureyri dagana 14.-17. júní. Starfsmenn Aflsins voru sýnilegir á helstu viðburðum og skemmtistöðum á Akureyri auk þess sem tjaldsvæði voru heimsótt. Starfsmenn Aflsins tóku þátt í undirbúningsfundum og skipulagi og áttu mjög gott samstarf við skipuleggjendur og aðra sem að Bíladögum komu. Viðvera og gönguvaktir Aflsins á Bíladögum og um verslunarmannahelgina eru hluti af skyldum Aflsins samkvæmt samstarfssamningi samtakanna við Akureyrarbæ.

Aflið var með vaktir og viðveru á Eistnaflugi á Neskaupstað dagana 5.-9. júlí að ósk skipuleggjenda og tóku starfsmenn Aflsins þátt í samráðsfundum á meðan á hátíðinni stóð. Starfsmenn Aflsins voru sýnilegir á tjaldsvæði og á tónleikum auk þess sem þeir voru á sólarhrings bakvakt meðan á hátíðinni stóð. Aflið hefur áður verið með viðveru á Eistnaflugi og átt í góðu samstarfi við hátíðina og er það okkar von að framhald verði á því.

Mærudagar voru haldnir á Húsavík dagana 27.-30. júlí og voru starfsmenn Aflsins með vaktir og viðveru á helstu viðburðum og skemmtistöðum á föstudegi og laugardegi auk þess sem þeir voru með símann á bakvakt allan sólarhringinn. Starfsmaður Aflsins var viðstaddur samráðsfundi á meðan á hátíðinni stóð og var samstarf og aðstaða eins og best verður á kosið og vonandi verður framhald á því næstu ár.

Líkt og á Bíladögum var Aflið með vaktir og viðveru á Einni með öllu um verslunarmannahelgina á Akureyri sem hluta af samstarfssamningi við Akureyrarbæ. Aflið tók þátt í undirbúningsfundi fyrir helgina og fékk aðstöðu í húsnæði Viðburðastofu Norðurlands. Skipulag vakta og viðveru var með svipuðum hætti og á Bíladögum þar sem starfsmenn Aflsins voru sýnilegir á helstu viðburðum, tjaldstæðum og skemmtistöðum bæjarins auk þess sem starfsmaður var á sólarhringsbakvakt alla helgina.

Aflið þakkar skipuleggjendum fyrir frábært samstarf og það traust sem okkur er sýnt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *


*