Þegar farið er yfir síðasta starfsár Aflsins kemur fyrst upp í huga minn þakklæti. Þakklæti til Akureyrarbæjar, ráðmanna þjóðarinnar, nærliggjandi sveitafélaga, fyrirtækja, stofnana og almennings.

Þakklæti fyrir jákvætt viðmót, góðan stuðning og velvilja í garð Aflsins og því mikilvæga starfs sem þar er unnið. Sá ómetanlegi stuðningur sem Aflið hefur notið hefur haft jákvæð áhrif á starfsemina og skilað sér út í samfélagið okkar.

Viðburðir á árinu voru margir og af ýmsum toga. Meðal annars þáði Aflið boð Norrænu ráðherranefndarinnar um þátttöku í ráðstefnu um langtímaafleiðingar kynferðisofbeldis sem fram fór á Grænlandi.

Samtökin tóku þátt í Alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og stóðu í samstarfi við Jafnréttisstofu fyrir velheppnuðu málþingi sem bar titilinn ,,Málþing um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum“.

Átján hluparar hlupu til styrktar Aflinu í Reykjavíkurmaraþoni í fyrsta sinn á síðasta ári.

Einnig stóð Aflsfólk vaktina á Akureyrarvöku og voru seld friðarljós til styrktar samtökunum sem kveikt var á í lok hátíðarinnar og raðað í tröppur Akureyrarkirkju.

Á liðunu ári voru að jafnaði starfandi fimm ráðgjafar hjá samtökunum fjórar konur og einn karlmaður og er hann fyrsti karlkyns ráðgjafinn sem tekur til starfa hjá Aflinu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla og þróa grunnstarfsemi Aflsins sem meðal annars felst í því að auka menntun, þjálfun og fagmennsku.

Ásókn i þjónustu Aflsins hefur aukist jafnt og þétt. Á undanförnum fjórum árum hefur fjöldi þeirra sem leita til Aflsins tvöfaldast. Milli árana 2014 og 2015 sjáum við mjög mikla aukningu hvað varðar einstaklingsviðtöl eða um 33,6%. Einnig hefur þeim einstaklingum sem leita í fyrsta sinn eftir þjónustu Aflsins fjölgað, svo og þeim sem sækja stuðning í hópastarf samtakana.

Vafalítið á þessi aukning í þjónustu Aflsins sér ýmsar skýringar. Má í því sambandi nefna sterka einstaklinga sem stigið hafa fram og sagt sögu sína. Ásamt ,,BeautyTips byltingunni“ og „Free The Nipple“ þar sem ekki síst ungt og kraftmikið fólk lét að sér kveða og varð til þess að opna samfélagsumræðuna en frekar um afleiðingar ofbeldis.

Sú þjónusta sem Aflið býður upp á er annars eðlis en sú þjónusta sem aðrar stofnanir veita og er mikilvæg viðbót við þá sérfræðiþjónustu sem einnig er í boði. Aflið hefur lagt ríka áherslu á að efla samstarf við öll þau félög og stofnanir sem koma að málefnum varðandi ofbeldi. Miklvægt samstarf sem því miður hafði setið á hakanum vegna tíma- og fjárskorts á undanförnum árum.

Fjarhagstaða samtakana var í járnum eins og svo mörg undanfarinn ár. Undir lok ársins samþykkti Velferðarráðuneytið að veita Aflinu tíu milljóna króna framlag. Sú upphæð kemur til greiðslu á þessu ári og mun nýtast vel í kjarnastarfsemi samtakana.

Aflsfólk fagnar mjög þessu framlagi sem er þó hvergi nærri nóg til að standa straum af rekstrinum.

Þrátt fyrir allt það frábæra sjálfboðaliðstarf sem unnið er þá þarf samt sem áður fjármuni til að reka þá brýnu þjónustu sem Aflið stendur fyrir.

Við vitum að þörfin fyrir þjónustuna er til staðar og því er brýnt að koma starfseminni í viðunandi horf.

Aflsfólk heldur ótrautt áfram að leita allra leiða til að byggja upp og efla það mikilvæga starf sem unnið er innan Aflsins í þágu samfélagsins.

Eitt af markmiðum okkar er að koma samtökunum í hentugra húsnæði í samstafi við Akureyrarbæ og er sú vinna langt á veg kominn. Einnig hefur verið ráðin starfsmaður í 50% stöðu.

Nú þegar Tortóla er ekki lengur í tísku býður Aflið alla fjárfesta hjartanlega velkomna í sínar raðir. Þar er í boði hámarks ávöxtun sem skilar af sér öflugum mannauð. Það er svo sannarlega ekki snúið að eiga peninga á Íslandi.

Sameinumst um Samfélagslega ábyrgð gegn ofbeldi

Sigrún Finnsdóttir
varformaður Aflsins

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *


*